Stofan breyttist í risastóra þvottavél

Allt á floti í Houston í Texas. Enn er von …
Allt á floti í Houston í Texas. Enn er von á slæmu veðri næstu daga. AFP

„Ó, nei!“ hrópaði kona er vatn braut sér leið af krafti inn um gluggana í stofunni hjá henni í Wimberley í Texas. Brúnn vatnsvelgurinn sópaði upp húsgögnum í húsinu. „Stofan mín breyttist í risastóra þvottavél,“ segir Ernie Perez í samtali við CNN. Ernie og eiginkona hans Sarah voru heppin að slökkviliðsmenn voru skammt undan og gátu komið þeim til bjargar. Til þess þurftu þeir að nota báta því Blanco-áin hafði flætt svo yfir bakka sína að ekki var hægt að aka um göturnar. 

Ekki allir voru jafn heppnir. Að minnsta kosti 35 hafa látist í illviðrinu sem geisaði í fimm daga. Veðrinu fylgdu flóð og skýstrókar og lést fólk bæði í Texas, Mexíkó og Oklahoma. Enn er níu saknað í Texas.

Veðurfræðingar segja að enn sé veðrið ekki um garð gengið. Því er spáð að það eigi enn og aftur eftir að taka sig upp í Houston. Næstu fimm daga mega íbúarnir þar eiga von á miklum rigningum og þar af leiðandi flóðum. Sömu sögu er að segja um Dallas. 

Á myndskeiðinu hér að neðan má sjá þegar vatnsflaumurinn brýst inn í hús Perez hjónanna.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/KWqIn8_ybwA" width="420"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert