Swedbank varar við að fara yfir 30%

Frá Stokkhólmi.
Frá Stokkhólmi. Wikipedia

Greiningaraðilar hjá sænska bankanum Swedbank hafa varað við ástandi á húsnæðismarkaðinum í Stokkhólmi og Gautaborg, en mikil hækkun hefur átt sér stað á íbúðum þar upp á síðkastið. Kemur fram í rannsókn þeirra að of margir mögulegir húsnæðiskaupendur séu að horfa fram á að eyða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðisliðinn. Þetta kemur fram í frétt The Local.

Fyrir Íslendinga kann mögulega að hljóma framandi að bankar vari við því að húsnæðiskaupendur fari yfir þessi mörk, en hér á landi er ekki óalgengt að meira en þriðjungur ráðstöfunartekna fari í þennan lið. Swedbank segir þetta aftur á móti setja lántakendurnar í hættu með að lenda í fjárhagserfiðleikum í framtíðinni.

Bankinn er með 8 milljón viðskiptavini í Svíþjóð og hefur verið að greina nánar húsnæðislánasafnið sitt. Vara þeir sérstaklega við því að fólk miðsvæðis í Gautaborg og Stokkhólmi geti lent í þessum vandræðum, en þar getur meðalverð tveggja herbergja íbúða verið um þrjár milljónir sænskra króna, eða sem nemur 48 milljónum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert