Vó sjö kíló þegar hún lést

Svo virðist sem stúlkan hafi búið við ofbeldi og vannæringu …
Svo virðist sem stúlkan hafi búið við ofbeldi og vannæringu í langan tíma. Mynd úr safni. AFP

Par í Phoenix í Bandaríkjunum var í gær ákært fyrir að bera ábyrgð á dauða þriggja ára dóttur þeirra. Stúlkan vó aðeins tæplega sjö kíló þegar hún lést síðustu helgi og voru fjölmargir áverkar á líki hennar.

Foreldrar stúlkunnar, 28 ára og 36 ára, eru sökuð um morð og misnotkun. Áverkar á líki stúlkunnar benda til þess að stúlkan hafi verið barin og misnotuð kynferðislega. Voru áverkarnir ekki allir nýlegir og því ljóst að misnotkunin hefur staðið yfir í nokkurn tíma.

Stúlkan var flutt á sjúkrahús og úrskurðuð látin á laugardag, viku fyrir fjögurra ára afmæli hennar. Hún bar þess einnig merki að hafa verið verulega vannærð.

Móðir stúlkunnar sagði í yfirheyrslum lögreglu að faðir stúlkunnar ætti erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu og hafi ítrekað slegið stúlkuna og sex ára bróður hennar með belti. Sjálfur játar faðirinn að hafa slegið börnin en það sé aðeins eðlilegt. Ætlunin hafi þó ekki verið að myrða barnið.

Systkinin deildu svefnherbergi með foreldrum sínum og sváfu börnin í litlu, óstöðugu rúmi. Lítill matur var í ísskápnum en nóg af bjór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert