Kúba ekki lengur á hryðjuverkalista

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna staðfesti ákvörðun Obama forseta um að taka Kúbu …
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna staðfesti ákvörðun Obama forseta um að taka Kúbu af lista yfir hryðjuverkalönd. AFP

Bandaríkin fjarlægðu í dag Kúbu af lista yfir ríki sem styðja við hryðjuverkastarfsemi. Um er að ræða tímamót í samskiptum ríkjanna sem hafa verið við frostmark síðustu hálfa öld. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafði fyrr á þessu ári tilkynnt að hann hygðist taka Kúbu af listanum og hafði þingið 45 daga til að mótmæla þeirri ákvörðun. Sá frestur rann út í dag og staðfesti John Kerry, utanríkisráðherra landsins, ákvörðunina.

Í tilkynningu frá stjórnvöldum í Washington kemur fram að þótt landið hafi verið tekið af hryðjuverkalistanum þá séu enn þá mörg mál og stefnur sem löndin greini á um. Það sé þó allt utan við skilgreiningu hryðjuverkalaganna.

Með þessu mun Kúba hafa greiðari aðgang að bandarískum bankastofnunum og stuðningi frá Bandaríkjunum. Auk þess hefur ákvörðunin væntanlega jákvæð áhrif á alþjóðasamskipti Kúbu sem lengi hefur verið litað af veru sinni á þessum lista.

Viðskiptabannið sem Bandaríkin settu á Kúbu er þó enn við lýði, en það var sett á árið 1962. Obama hefur hvatt þing landsins til að samþykkja að afnema það líka.

Ákvörðunin í dag þýðir að aðeins Íran, Súdan og Sýrland eru áfram á hryðjuverkalista Bandaríkjastjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert