Söguleg úrslit í stafsetningarkeppninni

Vanya Shivashankar og Gokul Venkatachalam eru jafngóð í stafsetningu.
Vanya Shivashankar og Gokul Venkatachalam eru jafngóð í stafsetningu. AFP

Annað árið í röð endaði bandaríska stafsetningarkeppnin Scripps með jafntefli. Keppnin í ár var einnig óvenjuleg að því leyti að í fyrsta sinn á sigurvegari hennar systkini sem hefur unnið keppnina.

Sigurvegararnir tveir eru Gokul Venkatachalam og Vanya Shivashankar. Vanya, 13 ára frá Kansas, á systur sem vann keppnina árið 2009.

Síðasta orðið sem hún þurfti að glíma við í keppninni var „scherenschnitte“ sem er notað yfir þá list að klippa listaverk út úr pappír. Síðasta orð Gokul var „nunatak“ og fór hann létt með að stafa það án allrar aðstoðar. „Nunatak“ þýðir hæð eða fjall sem er algjörlega umkringt jökli.

Gokul er 14 ára og frá Missouri. Hann var í þriðja sæti í keppninni á síðasta ári. „Ég var ekkert taugaóstyrkur,“ sagði hann að keppni lokinni.

Vanya hefur tekið þátt í keppninni frá því að hún var níu ára gömul og hefur alla tíð heillað áhorfendur. Hún er ekki aðeins snjöll að stafa orð því hún er einnig leikari og spilar á túpu og píanó. Hún ætlar sér að verða skurðlæknir.

„Það hafa orðið tímamót í keppninni, samkeppnin er mun meiri,“ segir framkvæmdastjóri  hennar, Paige Kimble. Keppnin hefur nú verið haldin í 52 ár og vekur alltaf gríðarlega athygli í Bandaríkjunum og víðar enda ekkert annað en undrabörn sem taka þátt og berjast um titilinn.

Vanya og Gokul fá 37 þúsund dollara, 5 milljónir króna, í verðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert