Var Nóbelskáldið myrt?

Ættingjar ljóðskáldsins Pablo Neruda frá Chíle segja réttarmeinafræðinga hafa fundið sönnun um mikla bakteríusýkingu í líkamsleifum hann sem auki á grun þeirra um að honum hafi verið byrlað eitur af einræðisherranum Augusto Pinochet.

Vafi hefur leikið á því hver raunveruleg dánarorsök Nóbelsverðlaunaskáldsins árið 1973 var síðan fyrrum bílstjóri hans hélt því fram að hann hefði fengið dularfulla sprautu í brjóstið á sjúkrahúsi í Santiago þar sem hann sótti krabbameinsmeðferð.

Neruda hafði skipulagt að fara til Mexíkó þar sem hann hugðist leiða andófshreyfingu gegn stjórn Pinochet en hann lést aðeins fáeinum klukkutímum eftir sprautuna, aðeins 69 ára gamall.

Uppgefin dánarorsök var krabbamein í blöðruhálskirtli en árið 2011 samþykktu yfirvöld beiðni kommúnistaflokks Chíle, flokks Neruda, um að grafa upp lík hans til frekari greiningar. Árið 2013 tilkynnti réttarmeinafræðistofnun Chíle að ekki væri hægt að rekja dauðsfall hans til óeðlilegra efnafræðilegra orsaka. Rannsóknin sem greint er frá hér að ofan er hinsvegar ný af nálini og var framkvæmd af sérfræðingum við Universidad de Murcia á Spáni. Þeir fundu óútskýrða bakteríu, Staphylococcus aureus, í líkamsleifum hans. Þeir segja hinsvegar að þörf sé á betra sýni til þess að staðfesta að dánarorsök Neruda hafi verið ónáttúruleg.

Neruda, sem vann bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1971, lést 12 dögum eftir að Pinochet hafði rænt forsetann Salvador Allende völdum. Fært hefur verið í sönnur að margir stjórnarandstæðingar hafi verið myrtir með eitri af handbendum hans á þeim 27 árum sem hann ríkti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert