Vilja líka þjóðaratkvæði um ESB

Marine Le Pen. leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar.
Marine Le Pen. leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar. AFP

Franska Þjóðfylkingin (Front National) vill að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í Frakklandi um veru landsins í Evrópusambandinu á sama tíma og fyrirhugað þjóðaratkvæði um veru Breta í sambandinu fer fram. Slík kosning er fyrirhuguð í Bretlandi fyrir lok ársins 2017.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að Florian Philippot, þingmaður Þjóðfylkingarinnar og varaformaður flokksins, hafi látið þau orð falla í gær að Francois Hollande, forseti Frakklands, ætti að fylgja fordæmi breskra stjórnvalda og tímasetningu þeirra. Tímabært væri ennfremur að allar þjóðirnar innan Evrópusambandsins fengju að segja álirt sitt á því.

Philippot sagði ennfremur að ef Hollande færi ekki að fordæmi Breta myndi Þjóðfylkingin gera þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu að helsta stefnumáli sínu í forsetakosningunum 2017. Þá vildi flokkurinn að sett yrði í lög að kjósendur gætu farið fram á þjóðaratkvæði um hvaða mál sem væri mál ef tækist að safna 500 þúsund undirskriftum.

Philippot nefndi sem dæmi um mál sem mætti leggja í þjóðaratkvæði aðild Frakklands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), aðild landsins að Schengen-samstarfinu og fyrirhugaðan fríverslunarsamning Evrópusambandsins við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert