Greiða reykingamönnum háar bætur

Dómari í Kanada fyrirskipaði í dag að kanadískir tóbaksframleiðendur þurfi að greiða reykingamönnum í Quebec-héraði 15 og hálfan milljarð Kanadadollara, um 1.600 milljarða króna, í bætur. Fólkið segir að það hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um þær hættur sem fylgja því að reykja.

Fyrirtækjunum Imperial Tobacco, Rothmans Benson & Hedges og JTI-MacDonald sögðust mundu áfrýja dómnum, sem er sá stærsti í sögu Kanada þegar litið er til fjárhæðar skaðabóta.

Dómurinn á rætur sínar að rekja til tveggja hópmálsókna, sem hófust árið 1998 en komust ekki fyrir dómstóla fyrr en nýlega. Um milljón reykingamanna átti aðild að málsóknunum sem hafði ekki tekist að hætta að reykja, eða þjáðust af háls- eða lungnakrabbameini.

Fólkið hélt því fram að fyrirtækin hefðu látið undir höfuð leggjast að vara viðskiptavini sína við þeim hættum sem fylgja reykingum og uppfylltu ekki skyldu sína til að valda öðru fólki ekki tjóni, eins og segir í dómsorðum hæstaréttardóms Quebec-ríkis. Fyrirtækin voru einnig ásökuð um ófyrirleitna markaðssetningu og að eyða gögnum sem hefðu skipt málum við málareksturinn.

Fyrirtækin héldu því á hinn bóginn fram að ákvörðun dómstólsins styðjist ekki við þau sönnunargögn sem voru dregin fram við réttarhöldin. „Kanadamenn hafa vitað af hættunum sem fylgja reykingum frá sjötta áratugnum, segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu JTI-MacDonald. „Þessi almenna vitneskja hefur eingöngu styrkst undanfarin ár vegna viðvarana sem hafa verið prentaðar á sígarettupakka undanfarin 40 ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert