Chris Christie í forsetann

Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey, tilkynnir um framboð sitt …
Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey, tilkynnir um framboð sitt í forvali repúblikana í dag. AFP

Ríkisstjóri New Jersey, Chris Christie, tilkynnti stuðningsmönnum sínum í dag að hann sæktist eftir því að vera útnefndur forsetaframbjóðandi repúblikanaflokksins. Fyrir nokkrum árum þótti Christie ein helst vonarstjarna flokksins en vinsældir hans hafa dvínað mjög undanfarið.

Vinsældir Christie hjá repúblíkönum voru í hámarki árið 2012 þegar hann vann góðan sigur í New Jersey sem hafði verið eitt af helstu vígum demókrata. Þá var hann talinn einn líklegasti forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum sem fara fram á næsta ári. Framboð hans verður opinberað formlega síðar í dag.

Hneykslismál og efnahagslegir erfiðleikar í heimaríki hans hafa hins vegar orðið til þess að taka vindinn úr seglum Christie. Í fyrra voru aðstoðarmenn hans sakaðir um samsæri um að stöðva umferð um George Washington-brúna til að ná sér niður á borgarstjóranum í Fort Lee sem hafði ekki stutt endurkjör Christie. Sjálfur neitaði ríkisstjórinn að hafa vitað nokkuð um gjörðir aðstoðarmanna sinna.

Christie er fjórtándi frambjóðandinn sem gefur kost á sér í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar. Ljóst er að róðurinn verður þungur fyrir hann en fjársterkir bakhjarlar repúblikanaflokksins hafa þegar heitið frambjóðendum eins og Marco Rubio og Jeb Bush stuðningi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert