Nauðguðu og kveiktu í stúlkum

Hermenn í Suður-Súdan.
Hermenn í Suður-Súdan. AFP

Hermenn í suðursúdanska hernum nauðguðu og kveiktu í stúlkum á heimilum þeirra í nýlegri herferð sem harðlega er gagnrýnd í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag. 

Rannsóknarmenn og skýrsluhöfundar frá verkefni Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan (UNMISS) fjalla um að útbreidd mannréttindabrot hafi verið þar framin. Skýrslan er byggð á frásögnum 115 fórnarlamba og vitna frá ríkinu Unity í norðurhluta landins, þar sem hörð átök hafa geisað í 18 mánaða langri borgarastyrjöldinni í landinu.

Herinn, Frelsisher fólksins í Súdan (SPLA), hóf sókn gegn sveitum uppreisnarmanna í apríl með hörðum átökum í héraðinu Mayom í Unity, sem eitt sinn var mikilvægur framleiðslustaður olíu.

„Þeir sem hafa lifað af þessi átök tilkynntu að SPLA og bandamenn þeirra frá Mayom hefðu farið í herferð gegn heimamönnum sem fólst í því að drepa óbreytta borgara, stela og eyðileggja þorp svo yfir 100.000 manns misstu heimili sín,“ segir í skýrslu SÞ.

„Sumar af mest truflandi ásökununum sem UNMISS heyrðu af sneru að brottnámi og kynferðislegu ofbeldi á konum og stúlkum, sem sumar voru brenndar lifandi á heimilum sínum.“

Borgarastyrjöld hófst í desember 2013 þegar forsetinn Salva Kiir sakaði fyrrverandi staðgengil sinn Riek Machar um að skipuleggja valdarán. 

Uppgangurinn í átökunum „hefur ekki aðeins snúið að ásökunum um morð, nauðganir, brottnám og rán, heldur einnig að nýrri grimmd og ákefð“, segir í skýrslunni. Þá kemur fram að umfang grimmdarinnar bendi til andúðar sem nær lengra en pólitískur ágreiningur.

Tveir þriðju af 12 milljónum manna í landinu þurfa aðstoð, samkvæmt SÞ, og einn sjötti hefur flúið heimili sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert