Hæsta sekt sögunnar vegna olíulekans

Olíuflekkur við Chandeleur-eyju í Mexíkóflóa eftir olíulekann árið 2010.
Olíuflekkur við Chandeleur-eyju í Mexíkóflóa eftir olíulekann árið 2010. AFP

Olíufyrirtækið BP hefur samþykkt að borga hæstu sekt sem greidd hefur verið vegna umhverfislagabrota í Bandaríkjunum til að ná sátt við nokkur ríki og bandarísku alríkisstjórnina í tengslum við olíulekann í Mexíkóflóa árið 2010. Sektin nemur 18,7 milljörðum dollara.

Lousiana, Mississippi, Alabama og Flórída ásamt bandaríska dómsmálaráðuneytinu stefndu BP vegna skaða sem fyrri sáttir sem fyrirtækið hafði gert við fyrirtæki og einstaklinga náðu ekki yfir. Dómari í málinu sagði í september að BP hefði gerst sekt um meiriháttar vanrækslu í rekstri sínum á olíuborpallinum sem lak. Fénu verður skipt á milli ríkjanna og rennur þar til hreinsunarstarfa eftir lekann.

Olíulekinn var sá versti í sögu Bandaríkjanna. Ellefu manns fórust og um 4,2 milljónir tunna af olíu láku út í Mexíkóflóa í 87 daga eftir að sprenging varð í olíuborpalli BP þar.

Frétt The Guardian af sektinni sem BP greiðir vegna olíulekans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert