Ítalskur ráðherra í hungurverkfall

Scalfarotto, sem er varaforseti Demókrataflokksins, er sjálfur samkynhneigður.
Scalfarotto, sem er varaforseti Demókrataflokksins, er sjálfur samkynhneigður. AFP

Ítalskur ráðherra, Ivan Scalfarotto, hefur hafið hungurverkfall til að vekja athygli á og afla stuðnings við frumvarp um staðfesta samvist samkynja para. Frumvarpið hefur setið fast í efri deild þingsins, þar sem andstæðingar þess hafa lagt fram þúsundir viðaukatillaga.

Scalfarotto, 49 ára, sagði í bloggfærslu að markmið hans væri að vekja almenna umræðu um málið og vekja þá til afhafna sem hefðu hingað til haldið að það væri nóg að bíða.

„Það er kominn tími til að gera meira til að styðja þá sem hafa unnið að því að tryggja að Ítalía nái í skottið á Kentucky, eða komist a.m.k. nær,“ sagði hann, og vísaði þar til nýfallins dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Ítalía er eitt fárra vestrænna ríkja þar sem sambönd samkynja para njóta engrar opinberrar viðurkenningar. Scalfarotto sagði að hann myndi halda hungurverkfallinu áfram þar til búið væri að ákveða dagsetningu þegar ástandið breyttist.

Fyrrnefndir viðaukar hafa m.a. verið lagðir fram af þingmönnum stjórnarflokksins NCD. Flokkurinn er ekki á móti staðfestri samvist sem slíkri en hefur farið fram á að ákvæði verði felld niður sem fjalla um ættleiðingar og lífeyrisréttindi.

Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti ítalskra kjósenda séu fylgjandi staðfestri samvist en stuðningur við viðurkenningu ríkisins og kirkjunnar á samböndum samkynja para hefur aukist umtalsvert eftir að Írar kusu að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og tvíkynhneigðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert