Var í slæmu formi og drakk of mikið áfengi

Richard Matt og David Sweat.
Richard Matt og David Sweat. AFP

Strokufangarnir David Sweat og Richard Matt rifust um áfengi og snerpu á flóttanum frá Clinton fangelsinu í New York fylki í síðasta mánuði. Eins og frægt er orðið sluppu mennirnir á ótrúlegan hátt úr fangelsinu og gengu lausir í um þrjár vikur. Matt var skotinn til bana af lögreglu en Sweat náðist lifandi.

Sagt er frá þessu á vef CNN.

Sweat hefur sagt rannsóknarlögreglumönnum að Matt hafi verið slæmu formi og drukkið of mikið áfengi á flóttanum. Mennirnir rændu áfengi úr veiðikofa sem þeir brutust inn í. Þeir urðu ósáttir um fimm dögum áður en Sweat náðist og fóru í sitthvora áttina. Matt var skotinn til bana í um 25 kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem Sweat fannst.

Að sögn yfirvalda fundu lögreglumenn áfengislykt af líkinu í nokkurra metra fjarlægð. Tveimur dögum seinna skaut lögreglumaður Sweat rétt hjá landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Sweat lifði skotið af og er nú á sjúkrahúsi. Þaðan hefur hann lýst flóttanum fyrir lögreglu.

Sluppu ekki einu sinni, heldur tvisvar

Leiðin sem mennirnir flúðu hefur vakið gífurlega athygli. Matt og Sweat tókst að kom­ast í gegn­um vegg í klefa sín­um, sem er m.a. styrkt­ur með járni og kom­ast inn í loftræ­stigöng. Þar þurftu þeir að brjóta niður vegg, saga í gegn­um þykka lögn, skríða eft­ir henni, og saga enn eitt gatið í vegg. Loks komust þeir upp um ræsi fyr­ir utan veggi fang­els­is­ins.

En nú hefur Sweat greint frá því að mennirnir náðu ekki aðeins að flýja einu sinni, heldur tvisvar. Mennirnir notuðu m.a. sleggju sem þeir fundu í neðanjarðargöngum innan fangelsisins til þess að brjóta niður vegg. Sleggjan var líklega skilin eftir að iðnaðarmanni fyrir mistök. Að sögn Sweat notuðu hann og Matt járnsagir til þess að saga í gegnum veggi fangaklefanna og í gegnum pípulagnir.

Bað fangana um að drepa eiginmanninn

Að sögn yfirvalda ætluðu fangarnir fyrst að hitta fangelsistarfsmanninn Joyce Mitchell þar sem þeir kæmu upp úr holræsinu fyrir utan fangelsið. Hún ætlaði að keyra þá í burtu. Síðan myndu fangarnir, sem voru báðir dæmdir morðingjar, drepa eiginmann hennar, Lyle, áður en þremenningarnir lögðu af stað til Mexíkó.

Að sögn Sweat stakk Mitchell sjálf upp á því að þeir myndu myrða eiginmann hennar. Verjandi hennar neitaði þeim ásökunum í gær. Mitchell heldur því fram að Matt og Sweat hafi skipulagt að drepa eiginmann hennar.

En þegar að Mitchell mætti ekki til þess að sækja mennina fyrir utan veggi fangelsisins ákváðu þeir að flýja norður, í átt til Kanada og voru þeir á flótta í þrjár vikur eins og fram hefur komið.

Skipulögðu flóttann í fimm mánuði

Sweat hefur greint frá því að hugmyndin að flóttanum kom upp í janúar. Eftir að hafa skipulagt sig í fimm mánuði, framkvæmdu þeir „æfingarflótta“. Kvöldið áður en Mitchell ætlaði að hitta þá við holræsið sluppu Sweat og Matt úr klefum sínum.

Þeir fóru í gegnum hálfgert völundarhús ganga og pípna áður en þeir komust út um holræsi. Sweat sagði að þeir hafi séð of mörg hús nálægt holræsinu og ákváðu að fara út í gegnum annað næstu nótt.

Yfirvöld skoða nú möguleikann á því að fangaverðirnir hafi sofnað á vaktinni þessar tvær nætur.

„Heiðursganginum“ lokað

Talið er að Sweat verið á sjúkrahúsinu í nokkra daga í viðbót. Þaðan fer hann aftur í fangelsi. Lögregla hefur nú yfirheyrt Sweat í tvo daga og er ekki talin þörf á að ræða meira við hann.

Mitchell hefur viðurkennt að hafa smyglað járnsagarblöðum inn í fangelsið í hamborgarakjöti sem var síðar fært Matt. Hún hefur verið handtekin og ákærð fyrir aðild sína að málinu.

Miklar breytingar hafa verið gerðar í Clinton fangelsinu eftir að fangarnir flúðu. Hver klefi verið nú skoðaður vikulega og fjöldi klefa sem er skoðaður af handahófi á hverjum degi verður þrefaldaður. Öll göng innan fangelsisins verða nú skoðuð einu sinni í mánuði í staðinn fyrir einu sinni á ári og „heiðursgangurinn“ sem Matt og Sweat voru á hefur verið lokað.

Á tímabili tóku 1300 manns þátt í leitinni að föngunum.
Á tímabili tóku 1300 manns þátt í leitinni að föngunum. AFP
Leitarhópar í New York fylki í síðustu viku.
Leitarhópar í New York fylki í síðustu viku. AFP
Að sögn David Sweat var Joyce Mitchell eini vitorðsmaður strokufanganna.
Að sögn David Sweat var Joyce Mitchell eini vitorðsmaður strokufanganna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert