Létust eftir árekstur við elg

Þrjú norsk ungmenni létu lífið í umferðarslysi sem varð í Heiðmörk í Noregi í nótt þegar bifreið þeirra ók á stærðarinnar elg sem stóð á miðjum veginum. Tvö þeirra létust samstundis og sú þriðja lést af áverkum sínum nú í dag. Aðeins bílstjórinn lifði slysið af. Eftir að bíllinn keyrði á elginn skaust bíllinn af veginum og lenti á tré og kom við það upp eldur í bifreiðinni.

Ungmennin voru öll í kringum 18 ára aldur. Á hverju ári láta að meðaltali þrír lífið í umferðinni af sökum elgs í Noregi og 5-10 slasast alvarlega. Hvað dýrin varðar drepast rúmlega sex þúsund hirtir og elgir í umferðinni í Noregi á ári hverju. Elgir geta orðið allt að 800 kg og eru þeir sérlega hættulegir ökumönnum því þegar ekið er á þá brotna veikbyggðir fótleggirnir og skrokkur dýrsins getur lent á framrúðunni. 

Rannsóknarnefnd umferðarslysa er nú að störfum. Aðstæðurnar þegar slysið varð voru góðar, þurrt og bjart. 

Umferðaryfirvöld hafa velt upp þeirri hugmynd að bæta þekkingu á hegðun slíkra dýra inn í námsefni ökuskólanna. Telja þau að með því að vita hvernig slík dýr hegða sér í návist vega sé hægt að fækka slysum og þar með dauðsföllum.

Sjá frétt Verdens gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert