Var vændiskona í aldarfjórðung

Powell gekk undir nafninu Breezy á götunni.
Powell gekk undir nafninu Breezy á götunni. Skjáskot/Youtube

Brenda Myers-Powell var á barnsaldri þegar hún hóf að selja líkama sinn. Í viðtali við fréttastofu BBC lýsir hún því hvernig hún var dregin inn í heim vændis og af hverju hún hefur nú tileinkað líf sitt baráttu fyrir því að aðrar stúlkur lendi ekki í sömu gildru.

Powell ólst upp í vesturbæ Chicago á sjöunda áratugnum. Móðir hennar var aðeins 16 ára þegar hún eignaðist hana og lést sex mánuðum síðar. Powell hefur aldrei komist að banameini móður sinnar og opinbera skýringin var „af náttúrulegum orsökum“.

„Ég trúi því ekki. Hver deyr 16 ára gamall af náttúrulegum orsökum? Ég kýs að trúa því að guð hafi einfaldlega verið tilbúinn fyrir hana,“ segir Powell.

Powell ólst upp hjá ömmu sinni sem hún segir hafa verið góð kona en drykkfelld. Drykkjufélagar hennar fylgdu oft með inn á heimili hennar og beittu Powell kynferðislegu ofbeldi eftir að amma hennar sofnaði. Ofbeldið hófst þegar hún var fjögurra eða fimm ára gömul og varð reglubundið upp frá því.

Á götunni fyrir utan heimili Powell og ömmu hennar stóðu gjarnan konur með mikið hár í glansandi kjólum. Powell minnist þess að hafa ekki vitað hvað þær voru að gera þar en að sig hafi einnig langað til að glansa.

„Einn daginn spurði ég ömmu hvað konurnar væru að gera og hún sagði „Þessar konur fara úr nærbuxunum og karlar gefa þeim pening.“ Og ég man eftir að hafa sagt við sjálfa mig „Ég mun líklega gera það“, af því að karlar voru hvort eð er að klæða mig úr nærbuxunum.“

Rænt af melludólgum

Powell segir að þrátt fyrir aðstæður sínar hafi hún verið glaðvært barn og félagslynt. Hún minnist þess þó að hafa búið við sífelldan ótta og ekki vitað hvort það sem kom fyrir hana væri hennar sök eða ekki. Hún hætti í skóla og hafði eignast tvö börn áður en hún náði 14 ára aldri. Í kjölfarið fór amma hennar fram á að hún færi að draga björg í bú svo Powell fór og stóð á götuhorni, íklædd ódýrum kjól og plastskóm og með appelsínugulan varalit til að virðast eldri.

„Ég var 14 ára gömul og ég grét í gegnum það allt. En ég gerði það. Ég naut þess ekki en mennirnir fimm sem áttu stefnumót við mig þetta kvöld sýndu mér hvað ég ætti að gera. Þeir vissu að ég væri ung og það var næstum eins og það gerði þá spennta.“

Powell fékk 400 dollara, tók lestina heim og fékk ömmu sinni meirihluta peningsins og hún  spurði ekki hvaðan hann kæmi. Hún fór aftur á sama hornið helgina eftir en í þriðja skiptið réðust tveir menn að henni, börðu hana með skammbyssu og settu hana í skottið á bílnum sínum. Þeir höfðu nálgast hana áður vegna þess að hún var á götunni á eigin vegum og án „umboðsmanns“. Mennirnir nauðguðu henni og læstu hana síðan inni í skáp á hótelherbergi.

„Það eru svona hlutir sem melludólgar gera til að brjóta niður anda stúlkna. Þeir héldu mér þarna inni í langan tíma. Ég grátbað þá um að sleppa mér því ég væri svöng en þeir vildu aðeins hleypa mér út úr skápnum ef ég samþykkti að vinna fyrir þá.“

Í sex mánuði seldu mennirnir aðgang að líkama Powell og hleyptu henni ekki heim. Hún reyndi að hlaupast á brott en þegar þeir náðu henni refsuðu þeir henni grimmilega. Síðar meir var hún seld af öðrum mönnum og segir hún að þó svo að líkamlega ofbeldið hafi verið hræðilegt hafi andlega ofbeldið verið verra.

Powell segir að vel sé hægt að finna hamingjuna eftir …
Powell segir að vel sé hægt að finna hamingjuna eftir vændi. Skjákskot/YouTube

Notuð eins og klósett

Powell segir glamúrinn sem sumir tengja við vændi, líkt og sýndur er í kvikmyndinni Pretty Woman, vera afar fjarri lagi. Vændiskona geti selt yfir 1.800 karlmönnum líkama sinn á ári og að þeim samböndum fylgi engin blóm, þar sem líkami konunnar er notaður eins og klósett. Sjálf hefur hún verið skotin fimm sinnum af kúnnum og stungin 13 sinnum.

„Ég veit ekki af hverju þessir menn réðust á mig, allt sem ég veit er að samfélagið gerði það þægilegt fyrir þá að gera það. Þeir komu með reiði sína, geðsjúkdóma eða hvað sem það var og ákváðu að ganga berserksgang á vændiskonu, vitandi að ég gæti ekki farið til lögreglunnar og að ef ég gerði það yrði ég ekki tekin alvarlega. Ég prísa mig í raun sæla. Ég þekkti fallegar stúlkur sem voru myrtar þarna úti á götunum.

Ég stundaði vændi í 14 eða 15 ár áður en ég neytti nokkurra fíkniefna. En eftir smá tíma, eftir að þú hefur selt þig eins oft og þú getur, eftir að þú hefur verið kyrkt, einhver hefur haldið hníf að kverkum þínum eða kodda yfir hausnum á þér, þarftu eitthvað til að bæta pínu hugrekki í kerfið þitt.“

Powell stundaði vændi í 25 ár og segist hún aldrei hafa séð leið út fyrr en 1. apríl 1997 þegar hún var nær fertug. Kúnni henti henni út úr bifreið sinni en kjóll hennar festist í hurðinni og hún dróst meðfram götunni sex húsaraðir svo húðin á andliti hennar og á hlið líkamans skrapaðist af. Powell var flutt á bráðamóttöku og var lögreglumaður kallaður til sem sagði að hún væri bara hóra sem hefði líklega fengið þá útreið sem hún átti skilið.

„Þau ýttu mér fram í biðsalinn, eins og ég væri einskis virði, eins og ég ætti ekki þjónustu bráðamóttökunnar skilið eftir allt,“ segir Powell. Hún segir þetta hafa verið augnablikið þar sem hún hóf að hugsa um allt það sem hafði gerst í hennar lífi og í fyrsta skipti á ævinni vissi hún ekki hvernig hún átti að halda áfram. Hún segist hafa snúið sér til guðs sem svaraði í flýti. Læknir kom og hlúði að sárum hennar auk þess sem félagsþjónusta spítalans hjálpaði henni að komast í athvarf þar sem hún eyddi næstu tveimur árum ævi sinnar. Sárin greru og það gerði sálin einnig.

Powell hefur eytt síðari hluta ævinnar í að hjálpa fórnarlömbum …
Powell hefur eytt síðari hluta ævinnar í að hjálpa fórnarlömbum heimilisofbeldis og mansals. Skjáskot/ YouTube

Hjálpar öðrum fórnarlömbum mansals

Powell segir að í fyrstu, eftir að hún yfirgaf athvarfið, hafi hún ekki viljað tala um upplifanir sínar. Fljótlega fór hún þó að stunda sjálfboðaliðastarf og í kjölfarið áttaði hún sig á þörfinni fyrir fyrirmynd fyrir ungar konur í vændi, svo þær gætu séð að sárin gætu gróið. Árið 2008 stofnaði hún Dreamcatcher-stofnunina sem miðar að því að bjarga konum í þessum aðstæðum auk þess sem hún rekur frístundaklúbba fyrir stúlkur í svipaðri aðstöðu og hún var í á áttunda áratugnum.

„Ég skynja um leið og ég hitti stúlku hvort hún sé í hættu en það er ekkert ákveðið mynstur. Þú gætir verið með eina stúlku sem er hljóðlát og innræn og þú nærð ekki augnsambandi við. Svo gæti verið önnur sem er hávær og hvimleið og alltaf að koma sér í vandræði. Þær verða báðar fyrir ofbeldi heima fyrir en eiga við það með ólíkum hætti – það eina sem þær eiga sameiginlegt er að þær ætla ekki að tala um það. En með tímanum skilja þær að ég hef gengið í gegnum það sem þær hafa gengið í gegnum og tala þá við mig.“

Powell segir að þó svo að margir telji að vændi geti fundist í ásættanlegum myndum sé mikilvægt að spyrja sig hvort maður myndi undir nokkrum kringumstæðum hvetja einhvern til vændis.

„Sama hvernig aðstæðurnar hefjast fyrir stúlku er það ekki þannig sem þær munu enda. Þetta gæti litið allt í lagi út núna, stúlkan í laganáminu gæti sagt að hún sé bara með kúnna af háum stigum sem koma til hennar í gegnum umboðsskrifstofu, að hún vinnur ekki á götunum heldur hittir fólk á hótelherbergjum, en í fyrsta skipti sem einhver meiðir hana, það er þá sem hún sér aðstæður sínar eins og þær eru.“

Powell segist vera hamingjusöm í dag. Dómar sem hún fékk fyrir vændi hafa verið þurrkaðir af sakaskrá hennar og hún hefur verið hamingjusamlega gift í rúman áratug. Dætur hennar ólust upp hjá frænku hennar og er önnur þeirra læknir og hin vinnur innan réttarkerfisins. Powell hefur að auki ættleitt lítinn frænda sinn ásamt manninum sínum og lýsir sér sem 58 ára fótboltamömmu.

„Það er líf eftir svo mikinn skaða, það er líf eftir svo mikil áföll. Það er líf eftir að fólk hefur sagt þér að þú sért ekkert, að þú sért einskis virði og munir aldrei verða neitt. Það er líf – og ég er ekki bara að tala um smá líf. Það er fullt af lífi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert