Áhöfnin ákærð fyrir morð

Frá björgunaraðgerðum við ferjuna.
Frá björgunaraðgerðum við ferjuna. AFP

Filippeysk lögregluyfirvöld hafa ákært eiganda og áhöfn farþegaferju sem hvolfdi á fimmtudag fyrir morð.

Samkvæmt borgaryfirvöldum í Ormoc í Filipseyjum létust 56 í ferjuslysinu og 142 lifðu af. Fyrstu rannsóknir sýna að ferjan tók skyndilega beygju í hafinu úti fyrir höfn Ormoc sem olli því að hún hvolfdi. Einnig er talið að ferjan hafi haft of marga farþega og farm innanborðs. „Þau fóru ekki varlega og sýndu þar með að það var ætlun þeirra að drepa. Þau voru viljandi óvarkár,“ sagði lögreglustjórinn Asher Dolina við AFP.

Alls voru 19 manns kærðir, skipstjóri, stýrimaður og 17 áhafnarmeðlimir ferjunnar. Samkvæmt filipeyskum lögum getur morð varðað allt að 40 ára fangelsi. Borgarstjóri Ormoc, Godiardo Ebcas segir þrútin lík hafa oltið út úr skipsskrokki ferjunnar þegar krani lyfti honum úr vatninu og kom honum fyrir á þurru landi.

Sjónarvottar segjast hafa séð allt að því 150 poka af hrísgrjónum, steinsteypu og áburði í ferjunni og segir Ebcas að farmurinn hafi getað bætt vel yfir 7.500 kílóum af þyngd við ferjuna sem þegar var troðin af farþegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert