Sakar lánardrottna um hryðjuverk

Yanis Varoufakis á samstöðufundi í Aþenu í gær.
Yanis Varoufakis á samstöðufundi í Aþenu í gær. AFP

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis segir lánardrottna ríkisins stunda hryðjuverk. Ummælin lét Varoufakis falla í viðtali sem birtist í dag en á morgun fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla í landinu um hvort Grikkir muni ganga að skilmálum lánardrottna eður ei.

„Það sem þeir eru að gera við Grikkland á sér nafn - hryðjuverk,“ sagði Varoufakis við spænska blaðið El Mundo. Sagði hann forsvarsmenn Evrópusambandsins óska þess að „já“ hliðin hafi sigurinn svo að þeir geti niðurlægt Grikki.

 „Afhverju neyddu þeir okkur til að loka bönkunum? Til að vekja ótta hjá fólki. Og það að breiða út ótta er kallað hryðjuverk,“ sagði Varoufakis og vísaði til Alþjóðagjaldeyris sjóðsins og Evrópusambandsins.

 Ríkisstjórn Grikklands hvetur þjóðina til að kjósa „nei“ í dag. Sagði Varoufakis að bankarnir muni opna og að yfirvöld muni komast að samkomulagi við lánardrottna.

„Evrópa þarf samkomulag, Grikkland þarf samkomulag, það þýðir að við munum komast að samkomulagi,“ sagði hann og hélt áfram. „Þeir sem hata okkur vilja mála okkur upp sem and-evrópska en það er ekki satt, við erum það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert