Ekki hægt að útiloka brotthvarf

Evrópusambandið vill halda Grikkjum í evrusamstarfinu en þeir gætu hins vegar þurft að segja skilið við evruna ef þeir leggja ekki fram raunhæfar umbótatillögur sem lánardrottnar landsins sætta sig við. Þetta er mat Valdis Dombrovskis, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

„Það er ekki markmiðið okkar en ef traustið verður ekki endurheimt; ef það verða engar trúverðugar umbótatillögur, þá er ekki hægt að útiloka það,“ sagði hann við fjölmiðla í morgun þegar hann var spurður að því hvort Evrópusambandið vildi að Grikkir yfirgæfu evrusamstarfið.

Dombrovskis ræddi við fjölmiðla áður en fundur fjármálaráðherra evruríkjanna hófst í Brussel í dag. Leiðtogar evruríkjanna munu síðan funda í kvöld.

„Við bíðum eftir yfirgripsmiklum, raunhæfum og trúverðugum tillögum frá Tsakalotos til þess að geta hafið viðræðurnar,“ sagði Pierre Moscovici, efnahagsstjóri Evrópusambandsins, við fjölmiðla áður en hann gekk á fundinn.

Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi evruhópsins svonefnda, sagði að fjármálaráðherrarnir myndu nú taka eitt skref í einu og byrja á því að heyra hljóðið í Euclid Tsakalotos, nýjum fjármálaráðherra Grikklands.

Eins og kunnugt er höfnuðu Grikkir í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudaginn að ganga að samningsboði lánardrottna ríkisins. Stjórnvöld í Aþenu hafa sagt að niðurstaðan gefi þeim betri stöðu til að krefja lánardrottnana um betri samninga.

Leiðtogar Evrópusambandsins þurfa nú að velja á milli þess að gefa Grikkjum nýtt tækifæri eða neyða þá til að gefa evruna upp á bátinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert