Kínverskur „Walter White“ handtekinn

Hefur maðurinn verið kallaður hinn kínverski Walter White, eftir aðalpersónunni …
Hefur maðurinn verið kallaður hinn kínverski Walter White, eftir aðalpersónunni í þáttunum Breaking Bad. Mynd/Wikipedia

Kínverska lögreglan hefur handtekið efnafræðikennara sem grunaður er um að hafa selt tegund af eiturlyfinu Ecstasy til kaupenda víðs vegar um heiminn í gegnum internetið.

Þykir mál hans heldur líkt söguþræðinum í þáttunum Breaking Bad þar sem hinn miðaldra efnafræðikennari Walter White gerist harðsnúinn eiturlyfjaframleiðandi.

Það var árið 2005 að Kínverjinn komst að því að efni sem hann sjálfur gat framleitt þótti afar vinsælt á meðal eiturlyfjanotenda. Var hann þá staddur sem gestafyrirlesari við háskóla í Ástralíu.

Þegar hann kom heim til Kína stofnaði hann framleiðslufyrirtæki sem framleiddi ýmis efni. Meðal annars lét hann starfsmenn fyrirtækisins framleiða mörg hundruð kíló af efninu MDMC sem af mörgum er notað í stað eiturlyfsins Ecstasy. Frá mars á síðasta ári og fram í nóvember seldi hann alls 193 kíló af efninu til útlanda.

Í síðasta mánuði var framkvæmd húsleit í verksmiðjunni og fundust 20 kíló af efninu. Voru átta manns handteknir.

Ekki hefur verið opinberað hvaða háskóla kennarinn starfaði við en samkvæmt ríkisfjölmiðlinum Xinhua er um að ræða frægan háskóla í borginni Wuhan.

Sjá frétt Verdens gang

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert