Þekkir þú fórnarlamb Chanslers?

Lucas Michael Chansler
Lucas Michael Chansler FBI

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur óskað eftir aðstoð almennings við að bera kennsl á yfir 240 fórnarlömb manns sem þvingaði unglingsstúlkur til þess að senda sér nektarmyndir á netinu.

Samkvæmt upplýsingum frá FBI þóttist Lucas Michael Chansler, 31 árs, vera unglingspiltur á spjallrásum á netinu til þess að fá stelpur til þess að bera sig fyrir framan vefmyndavélar. Í kjölfarið kúgaði hann stúlkurnar til þess að senda sér klámfengnar myndir af sér.

BBC greinir frá því að í fyrra hafi hann verið dæmdur í 105 ára fangelsi eftir að hafa játað að hafa framleitt barnaklám. Þegar hafa verið borin kennsl á 109 stúlkur á myndunum.

Fórnarlömb Chansler koma frá 26 ríkjum Bandaríkjanna, þremur héruðum í Kanada og Bretlandi. FBI leitar nú upplýsinga um 241 fórnarlamb til viðbótar en Chansler var handtekinn árið 2010. Stúlkurnar fá ráðgjöf um leið og þær koma fram segir í frétt BBC en einhver fórnarlömb níðingsins hafa hætt í skóla og reynt að fremja sjálfsvíg. 

FBI hefur birt nokkur þeirra gælunafna sem Chansler notaði á netinu en hann á að hafa náð til stúlknanna með því að þykjast vera aðdáandi, vinur eða kunningi. Chansler viðurkennir að hafa notað samfélagsmiðla til þess að spjalla við stúlkurnar sem voru á aldrinum 13-18 ára. 

Upplýsingar um Chansler

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert