Máttu skjóta óvopnaðan mann

Baltimore. Mynd úr safni.
Baltimore. Mynd úr safni. AFP

Dómari í Marylandríki í Bandaríkjunum vísaði í dag frá kröfu móður hins 31 árs gamla Maurice Donald Johnson, þar sem hún krafðist viðurkenningar þess að lögreglan hefði beitt of miklu afli þegar lögreglumenn skutu hann til bana. Johnson var greindur með geðhvörf árið 2009. Hann var óvopnaður.

Í frétt Baltimore Sun segir að Marcella Holloman óskaði eftir aðstoð lögreglu við að róa son sinn niður á heimili hennar í norðausturhluta Baltimore, eftir að hann missit stjórn á sér í barnaafmæli barnabarns Holloman. Hún flutti málið sjálf, þar sem enginn lögfræðingur vildi flytja málið fyrir hana.

Dómarinn sagði ákvörðun lögreglumannanna um að skjóta manninn hafa verið „eðlileg við þær aðstæður sem voru uppi.“

„Dómurinn hefur mikla samúð með Holloman, sem hefur orðið fyrir miklu áfalli,“ segir í dómnum. „Málið undirstrikar þá erfiðu valkosti sem bæði fjölskyldumeðlimir og löggæsluyfirvöld hafa þegar takast þarf á við fólk sem sýnir af sér ofbeldisfulla hegðun, oft vegna geðsjúkdóma.“

Holloman sagði við málflutninginn að það hafi ekki verið nokkur ástæða fyrir tvo lögreglumenn að yfirbuga óvopnaðan son hennar án þess að skjóta hann. Hún segist hafa kallað til lögreglu til að aðstoða hana við að koma syni hennar á spítala.

Hún segist oft hafa þurft að kalla til lögreglu vegna hegðunar sonar síns. Í þetta skiptið var Holloman að halda upp á afmæli sex ára ömmudóttur sinnar þegar hún varð vör við mikinn hávaða á efri hæð húss hennar. Johnson hafði þá brotið spegil á vegg og 42 tommu sjónvarp, og hún þurfti aðstoð við að koma honum á spítala.

Frétt Baltimore Sun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert