Sonur Gaddafi dæmdur til dauða

Saif al-Islam Gaddafi í ágúst 2011.
Saif al-Islam Gaddafi í ágúst 2011. AFP

Saif al-Islam Gaddafi, sonur Múammar Gaddafi, hefur verið dæmdur til dauða af dómstól í Líbíu. Gaddafi yngri og átta aðrir voru ákærðir fyrir stríðsglæpi í tengslum við byltinguna í landinu árið 2009.

Fleiri en 30 nánir samstarfsmenn Gaddafi hafa verið dregnir fyrir dóm fyrir tilraunir sínar til að kveða niður friðsamleg mótmæli á meðan byltingunni stóð.

Saif al-Islam var ekki viðstaddur þegar dómur var kveðinn upp í málinu. Hann er í haldi uppreisnarhóps í bænum Zintan, sem hefur neitað að láta hann af hendi. BBC hefur eftir heimildarmanni í Zintan að hópurinn hyggist hvorki taka Saif al-Islam af lífi né afhenda hann yfirvöldum.

Sakfelldu verða teknir af lífi af dauðasveit, þ.e.a.s. skotnir til bana. Meðal þeirra er fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar, Abdullah al-Senussi, og fyrrverandi forsætisráðherra, Baghdadi al-Mahmoudi.

Þeir hafa 60 daga til að áfrýja dómunum.

Áður en til uppreisnarinnar kom reyndi Saif al-Islam að koma á pólitískum- og efnahagslegum umbótum. En hann stóð þétt við hlið föður síns þar til yfir lauk. Hann er eftirlýstur af hálfu Alþjóðaglæpadómstólsins fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Saksóknarar segja að hann hafi átt aðild að áætlunum Gaddafi um að kveða niður mótmælin gegn einræðisherranum með öllum mögulegum ráðum.

Mikill óstöðugleiki hefur ríkt í landinu frá því að Gaddafi var drepinn. Engin eiginleg stjórnvöld eru við völd í Líbíu; alþjóðlega viðurkennt þing situr í Tobruk, en höfuðborgin Tripoli er á valdi Líbískrar dögunnar.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert