Bretland ekki öruggt skjól

Þrátt fyrir mikinn viðbúnað lögreglu við Ermarsundsgöngin þá reyndi fjöldi flóttamanna að komast inn í göngin í gærkvöldi í nótt í þeirri von að komast til fyrirheitna landsins, Bretlands. 

Margir þeirra eru ungir að árum, 13-15 ára gamlir, og að sögn fréttamanna sem fylgdust með í nótt reyndi fólkið að komast í gegnum göt á varnargirðingunum, aðrir reyna  að klifra yfir þrátt fyrir að þær séu fleiri metrar að hæð og með gaddavír. Afríkubúar eru fjölmennir í hópi flóttafólksins, meðal annars frá Erítreu og Súdan.

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hótar því að fleiri ólöglegir innflytjendur verði reknir úr landi og varar flóttamenn í Calais við því að þeir geti ekki vænst þess að Bretland verði öruggt skjól þeirra. Hundruð reyndu að komast yfir Ermarsundið í nótt. Yfir 3.500 flóttamenn hafa reynt að komast inn á brautarstöð Ermarsundsganganna í frönsku hafnarborginni Calais í þessari viku. 

Franska lögreglan kom í veg fyrir að fólkið kæmist inn á brautarstöðina en þetta er þriðja kvöldið í röð sem fleiri hundruð flóttamenn gera áhlaup á brautarstöðina. Alls hafa níu látist við að reyna að komast yfir Ermarsundið til Bretlands frá því í síðasta mánuði.

Cameron segir að gera þurfi meira til þess að vernda landamæri Bretlands. Hann segir að það verði að reyna að koma á bættu ástandi í heimalöndum fólksins svo það hrekist ekki á flótta yfir Miðjarðarhafið í þeirri von að öðlast betra líf. Hann segir að ekki sé nóg að gera ástandið stöðugra heldur þurfi einnig að slíta hlekkinn á milli ferðalaga og heimildar til þess að dvelja í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert