Mikilvægt gagn í leitinni að MH370

Áströlsk yfirvöld segja að flugvélabrakið sem fannst í gær á Indlandshafi sé mikilvægt gagn í leitinni að MH370, þotu Malaysia Airlines sem hvarf í mars í fyrra. Talið er mögulegt að brakið hafi rekið til frönsku eyjunnar La Reunion.

Um er að ræða tveggja metra langt stykki, mögulega úr væng, flöpsum (flaperon). Brakið fannst á strönd La Reunion í gær og vöknuðu strax vonir um að eitt dularfyllsta hvarf flugsögunnar væri að leysast.

Ráðherra samgöngumála í Ástralíu, Warren Truss, segir að þetta sé mjög mikilvægur fundur og ef þetta reynist vera brak úr MH370 séu auknar líkur á að ættingjar þeirra sem voru um borð í flugvélinni fái svör. 

Truss segir að Reunion-eyjar séu langt frá leitarsvæðinu en mögulegt sé að brakið hafi rekið með sterkum straumum.

Ráðherrann hefur haft yfirumsjón með leitinni að þotu Malaysia Airlines sem hvarf af ratsjám á leið frá Kuala Lumpur til Peking 8. mars í fyrra. Engin skýring hefur fundist á hvarfinu en alls voru 239 manns um borð, flestir þeirra Kínverjar. Leitarsvæðið er yfir 50 þúsund ferkílómetrar á Suður-Indlandshafi en alls hefur verið leitað á yfir 120 þúsund ferkílómetra svæði.

Að sögn Truss er ekki loku fyrir það skotið að brakið hafi rekið rúmlega 4.000 km frá því svæði sem líklegast þykir að flugvélin hafi farist.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert