Biden sagður undirbúa framboð

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, íhugar nú alvarlega hvort hann eigi að bjóða sig fram til þess að verða forsetaefni Demókrataflokksins fyrir kosningarnar á næsta ári, samkvæmt heimildum The New York Times.

Í frétt blaðsins segir að ráðgjafar Bidens séu nú þegar byrjaðir að heyra hljóðið í háttsettum mönnum innan flokksins sem og þeim styrktaraðilum sem hafa ekki lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton.

Maureen Dowd, dálkahöfundur blaðsins, greindi frá því í dag að Biden hefði haldið nokkra fundi á heimili sínu undanfarna daga. Þar hefði hann rætt við vini, fjölskyldu og styrktaraðila um hugsanlegt framboð sitt.

Fimm demókratar hafa nú þegar lýst því yfir að þeir sækist eftir að verða forsetaefni flokksins: Hillary, Bernie Sanders, Martin O'Malley, Jim Webb og Lincoln Chafee. Hillary nýtur langmestra vinsælda, en samkvæmt skoðanakönnunum fengi hún 55% fylgi, en Sanders aðeins 17%.

Sautján repúblikanar sækjast hins vegar eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins, þar á meðal Jeb Bush og Scott Walker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert