Úkraínskir hermenn féllu í bardögum

Úkraínskir hermenn.
Úkraínskir hermenn. AFP

Tveir úkraínskir hermenn hafa látið lífið og fjórtán manns særst í árásum aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu seinasta sólarhringinn, að sögn úkraínskra yfirvalda.

Árásirnar áttu sér aðallega stað í grennd við borgina Donetsk, sem er eitt aðalvígi aðskilnaðarsinna. Enn er mikil spenna á svæðinu, að sögn talsmanns úkraínska hersins.

Þá greindu yfirvöld í Kænugarði frá því að fimm óbreyttir borgarar, þar á meðal tólf ára gömul stúlka, hefðu særst í árásum í bænum Gorlivka, sem er á valdi aðskilnaðarsinna.

Íbúar í bænum tilkynntu Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu um árásirnar í dag, en talsmaður stofnunarinnar gat ekki staðfest hversu margir hefðu særst.

Harðir bardagar hafa geisað á milli úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu frá því í apríl í fyrra. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hafa yfir 6.800 fallið í átökunum og sautján þúsund særst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert