Leyniáætlun harðlínuaflanna opinberuð

AFP

Handtaka seðlabankastjórann. Tæma peningahirslur seðlabankans. Leita á náðir stjórnvalda í Moskvu.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í leynilegri áætlun harðlínumanna innan gríska stjórnarflokksins Syriza, bandalags róttækra vinstriflokka. Áætlunin miðaði að því að Grikkir segðu skilið við evruna og tækju aftur upp drökmuna.

Áætlunin var rædd á leynifundi á Óskarshótelinu í miðborg Aþenu þriðjudagskvöldið 14. júlí síðastliðinn, daginn eftir að grísk stjórnvöld náðu samkomulagi við lánardrottna landsins um skuldavanda landsins. Samkomulagi sem margir róttæklingar innan Syriza gátu ekki sætt sig við. Samkomulagi sem jafngilti í þeirra augum uppgjöf.

Minnstu munaði að slitnað hefði upp úr viðræðum grískra stjórnvalda og lánardrottnanna, en eftir sautján klukkutíma fund lét Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, deigan síga. Samkomulagið felur í sér að lánardrottnarnir veiti Grikkjum 86 milljarða evra lán gegn því að stjórnvöld þar í landi komi á ýmsum umbótum.

„Byltingarandi“ í herberginu

Á meðal þeirra sem lögðust gegn samkomulaginu var Panayotis Lafazanis, þáverandi orkumála- og umhverfisráðherra Grikklands. Hann er talinn leiða hóp harðlínumanna innan Syriza sem vill ýta Grikklandi lengra til vinstri og hefur auk þess daðrað við kommúnisma. Lafazanis var að lokum rekinn úr embætti eftir að hafa kosið gegn skilyrðum lánardrottnanna í atkvæðagreiðslu á gríska þinginu.

„Þetta var augljóslega spennuþrungið augnablik,“ segir einn harðlínumannanna og á við andrúmsloftið á fundinum leynilega á Óskarshótelinu. „En maður varð líka var við raunverulegan byltingaranda í herberginu.“

En gallhörðum kommúnistum var meira að segja brugðið þegar Lafazanis lagði til að ríkisstjórn Syriza hrifsaði til sín völdin yfir Nomismatokeopeion, grísku myntsláttinni, þar sem stór hluti af peningaforða landsins er geymdur.

Seðlabanki undir stjórn ríkisstjórnarinnar

„Áætlun okkar miðar að því að taka upp þjóðargjaldmiðil. Það er eitthvað sem við ættum nú þegar að hafa gert. En við getum gert það núna,“ sagði Lafazanis.

Hann sagði að nota ætti forðann, sem hann taldi að næmi um 22 milljörðum evra, til þess að greiða lífeyri og laun opinberra starfsmanna. Hann myndi einnig sjá Grikkjum fyrir mat og olíu á meðan verið væri að taka upp drökmuna.

Á sama tíma myndi seðlabankinn glata sjálfstæði sínu og yrði hann settur undir stjórn ríkisstjórnarinnar. Seðlabankastjórinn, Yannis Stournaras, yrði handtekinn ef hann legðist gegn áformunum.

Tilbúnir að ganga ansi langt

Heimildarmaður Financial Times, sem fylgdist með fundinum, segir að fundarmennirnir hafi verið ansi opinskáir um róttæk áform sín.

Áætlunin sýni, svo ekki verður um villst, að harðlínumenn innan Syriza hafi verið tilbúnir til að ganga ansi langt til að uppfylla pólitíska drauma sína. Þeir hafi aftur á móti ekki viljað horfa í augu við blákaldan raunveruleikann. Ekki hafi verið tekið tillit til staðreynda málsins.

Til dæmis má benda á að aðeins er að finna um tíu milljarða evra í peningahirslum seðlabankans. Það dugar til að halda landinu á floti í fáeinar vikur, en ekki í sex til átta mánuði, sem er sá tími sem það tekur að undirbúa upptöku nýs gjaldmiðils.

Ríkisstjórn Syriza myndi þó ekki einu sinni geta notað peningana. Né gæti hún prentað fleiri seðla. Ástæðan er sú að um leið og ríkisstjórnin tæki yfir myntsláttuna, þá myndi Evrópski seðlabankinn líta svo á að grískar evrur væru í raun falsaðir peningar. Sá sem myndi nota evrurnar ætti þá í hættu á að vera handtekinn fyrir fölsun, að sögn embættismanns innan Evrópska seðlabankans.

„Afleiðingarnar yrðu skelfilegar. Grikkir yrðu einangraðir frá alþjóðafjármálakerfinu, bankarnir ófærir um að gegna hlutverki sínu og evrurnar verðlausar,“ bætir hann við.

„Leið til helvítis“

Eftir að fregnir bárust af leynifundinum hafa nokkrir pólitískir andstæðingar krafist þess að harðlínumennirnir standi fyrir máli sínu.

„Meðlimir ríkisstjórnarinnar skipulögðu leið til helvítis fyrir Grikki,“ sagði Stavros Theodorakis, leiðtogi miðjuflokksins To Potami. „Þeir ráðgerðu að ræna úr peningahirslum Grikkja og leggja myntsláttuna undir sig eins og þetta væri einhver Playmobil leikur. Alexis Tsipras verður að segja okkur sannleikann um hvað gerðist.“

Lafazanis var þó ekki sá eini sem lagði til óhefðbundnar leiðir til þess að Grikkir gætu tekið upp drökmuna. Skömmu áður en Tsipras skrifaði undir samkomulagið við lánardrottnana hafði fyrrum fjármálaráðherra landsins, Yanis Varoufakis, lagt til - og það opinberlega - að Grikkir gæfu út sérstakar skuldaviðurkenningar til að greiða allar afborganir þangað til hægt væri að taka upp nýja mynt með formlegum hætti. Hann kallaði jafnframt eftir því að ríkisstjórnin tæki yfir stjórn seðlabankans.

Leituðu á náðir Rússa

Jafnvel fyrir fundinn á Óskarshótelinu hafði Lafazanis leitað örvæntingafullra leiða til að ná tökum á fjárhagsvandræðum Grikklands. Heimildir Financial Times herma að hann hafi talið að Grikkir ættu stuðning Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, vísan.

Lafazanis fundaði í þrígang í Moskvu, sem fulltrúi Tsipras, eftir að Syriza komst til valda í janúar. Vonir grísku ríkisstjórnarinnar stóðu til þess að hún næði samkomulagi við Rússa um að fá að leggja gasleiðslu þvert yfir Grikkland til að greiða fyrir gasstreymi frá Rússlandi til Tyrklands. Fullyrt var í grískum fjölmiðlum að Rússar ætluðu að borga Grikkjum fimm milljarða evra fyrir að fá að leggja leiðsluna, en samningurinn hefði valdið straumhvörfum fyrir grískan efnahag. En Rússar höfnuðu að lokum samningnum.

„Þetta voru allt saman draumórar,“ segir grískur bankastarfsmaður. Draumur harðlínuaflanna um ókeypis gas og gríska drökmu hafi orðið að engu.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP
Höfuðstöðvar Syriza í Aþenu.
Höfuðstöðvar Syriza í Aþenu. AFP
Panayotis Lafazanis, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Grikklands.
Panayotis Lafazanis, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Grikklands. AFP
AFP
Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert