Yfirhershöfðingi í Búrúndí myrtur

AFP

Yfirhershöfðingi í Búrúndí og náinn samstarfsmaður Pierre Nkurunziza, forseta landsins, féll í eldflaugaárás sem gerð var á bílinn hans í Bujumbura, höfuðborg landsins, í morgun.

Maðurinn, Adolphe Nshimirimana, var talinn vera sá næst valdamesti í landinu.

Lögreglan sagði að eldflaug hefði verið skotið á bílinn hans í miðbæ Bujumbura, en forestaembættið staðfesti síðar fregnirnar.

„Ég hef misst bróður, félaga í baráttunni. Hinn sorglegi raunveruleiki er sá að Adolphe Nshimirimana er ekki lengur á lífi,“ sagði Willy Nyamitwe, upplýsingafulltrúi forsetaembættisins, á Twittersíðu sinni.

Aðeins vika er síðan Nkurunziza var endurkjörinn sem forseti landsins, þriðja kjörtímabilið í röð. Kosningarnar þóttu afar umdeildar og voru fordæmdar af mannréttindasamtökum víða um heim. 

Ákvörðun forsetans um að bjóða sig fram í þriðja sinn olli mótmælum í marga mánuði, en meðal annars var reynt að steypa stjórn landsins, án árangurs. Létu að minnsta kosti hundrað manns lífið í mótmælunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert