Dóp og kynlíf tengd andláti milljarðamærings

Frá Sydney
Frá Sydney AFP

Það er ýmislegt grunsamlegt við dauðdaga fransks milljarðamærings í Ástralíu árið 2011 en banameinið var bannvænn kokteill ólöglegra efna. Lostafullt líferni hans er meðal þess sem dánardómstjóri tiltekur í skýrslu sinni.

Lík Davids Luc Monluns fannst þann 30. maí 2011 í íbúð í Sydney. Dánarorsökin var ofneysla GHB, sem inniheldur sömu efni og er að finna í e-töflum, og metamfetamín. En ekki er ljóst hvort Monlun var ráðinn bani eður ei að sögn aðstoðardánardómstjóra New Sourth Wales, Sharon Freund. Monlun, sem var fertugur að aldri, var ekki í sjálfsvígshugleiðingum og alls ekki víst að hann hafi dáið vegna þess að hann hafi fyrir mistök tekið of stóran skammt af eiturlyfjum. Heldur kemur til greina að honum hafi verið byrlað eitur í formi eiturlyfja. 

Að sögn Freund liggja unnusta Monluns, Sarah Manning, og vinur hennar Jamie Philp undir grun um að tengjst dauða hans. Samband Monlun og Manning stóð yfir frá árinu 2000 og þar til hann lést en slitrótt en hún hafði meðal annars tekið þátt í því að ræna honum árið 2006.

Manning og Philp voru þau síðustu sem sáu Monlun á lífi en hann flutti til Sydney árið 1996. Freund segir að líf þeirra tengist mikilli eiturlyfjanotkun, svikum og kynlífi. og þau hafi mikla ástæðu til þess að ljúga til þess að vernda sig og hvort annað. 

Að sögn Freund voru GHB, metamfetamín og kókaín þau fíkniefni sem Monlun notaði mest og byggði samband hans við Manning aðallega á kynlífi.

Fyrrverandi kærasti Manning, Matthew Haar, rændi Moulun í tvígang árið 2006, í annað skiptið með aðstoð Manning og annarrar konu. Þau voru öll þrjú dæmd fyrir nokkur brot í kjölfarið.

Í skýrslu Freund sem var birt við réttarhöldin í gær sýnir að nokkrum klukkustundum áður en lík Monluns fannst þá voru Manning og Philp á heimili hans og sjást þau á öryggismyndavélum yfirgefa íbúðina. Moulun sést einnig við dyrnar þegar þau fara og er greinilega afar valtur á fótum. Hann sést missa símann og skrönglast í átt að svefnherbergi sínu. 

Nokkrum dögum áður hafði verið tekin mynd á farsíma hans þar sem hann er með fullt fangið af peningum en peningarnir fundust ekki á heimili hans eftir andlátið. Manning var ekki látin gefa skýrslu hjá lögreglu fyrr en í mars á þessu ári, fjórum árum eftir andlát Mouluns og segir Freund hana óáreiðanlegt vitni sem sé örugglega að ljúga. 

Fréttir af réttarhöldunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert