Vilja ekki sprautufíkla og múslima

Frá Helsinki, höfuðborg Finnlands.
Frá Helsinki, höfuðborg Finnlands. Ljósmynd/Oleksiy Mark

Finnar vilja frekar búa nærri meðferðarstöð fyrir áfengissjúklinga heldur en bænahúsi múslima. Kemur þetta fram í nýrri könnun sem ríkisfréttastofa Finnlands hefur látið gera.

Byggist könnunin á hinu svokallaða NIMBY viðhorfi, sem stendur fyrir „Not in my back yard“. Gæti það útlagst á íslensku sem „Ekki í mínum bakgarði“. Voru þúsund manns spurðir hvers konar þjónustu þeir væru ánægðir með að hafa í hverfinu sínu.

43% aðspurðra sögðust ekki hafa neitt á móti því að meðferðarstöð fyrir áfengissjúklinga væri sett á fót nærri híbýlum þeirra. Töluvert færri, eða 34%, sögðust ekki vera andsnúnir því að moska væri í þeirra hverfi.

Aðeins eitt þótti óvinsælla en moska, en 27% aðspurðra myndu ekki setja sig upp á móti áformum um dreifingarstöð sprautunála fyrir fíkla í nágrenni sínu.

Á meðal annarra þjónusta sem getið var í könnuninni má nefna móttökustöð fyrir hælisleitendur (sem 41% samþykktu), stuðningsmiðstöð fyrir geðsjúka (52%) og stuðningsheimili fyrir ungt fólk (66%). Konur voru talsvert umburðarlyndari en karlar samkvæmt könnuninni og þá þótti ungt fólk móttækilegra en eldra fólk.

Sjá frétt Yle.fi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert