15 mánuðir eða verslunarferð?

Leiða má líkur að því að Bayern München hafi unnið …
Leiða má líkur að því að Bayern München hafi unnið umræddan leik í ágúst sl. fyrst mönnunum var heitt í hamsi. AFP

Þýskur dómari hefur dæmt tvær fótboltabullur til að kaupa Bayern München-varning handa manni sem þeir réðust á, en sjálfir eru þeir stuðningsmenn TSV 1860 München. Dómarinn sagði ákvörðunina líklega til að valda mönnunum nokkrum sársauka.

Ákærðu réðust á fórnarlamb sitt á aðallestarstöð München eftir leik í ágúst sl. og rifu utan af honum jakka, bol og stráhatt, sem voru skreytt merki Bayern München. Að sögn dómarans sýndu ákærðu enga eftirsjá, játuðu ekki né nefndu þriðja mann sem var með þeim.

Í samtali við Bild sagðist dómarinn hafa gefið mönnunum kost á að velja milli 15 mánaða fangelsisvistar eða fara verslunarferð í Bayern München-verslunina og endurnýja þann varning sem þeir skemmdu fyrir fórnarlambinu.

Mennirnir völdu síðari kostinn, en að sögn dómara var ákvörðunin mönnunum sársaukafull.

„Ég vildi sýna fram á að fótbolti er fótbolti en ekki vígvöllur,“ sagði dómarinn Karin Jung, um hina óvenjulegu refsingu, sem hún útdeildi með samþykki fórnarlambsins.

Lögmaður ákærðu sagði að skjólstæðingar sínir hefðu beðið fórnarlambið afsökunar, greitt honum 500 evrur hvor í skaðabætur og keypt handa honum hat, trefil og treyju í verslun Bayern München. Þeir munu afhenda varninginn á morgun fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert