Ræða yfirheyrslur yfir Assange

Julian Assange er stofnandi Wikileaks.
Julian Assange er stofnandi Wikileaks. AFP

Sænskir embættismenn munu funda með kollegum sínum frá Ekvador á mánudag til að freista þess að koma því í kring að sænskir saksóknarar geti yfirheyrt Julian Assange í tengslum við ásaknir um nauðgun.

Líkt og kunnugt er dvelur Assange í sendiráði Ekvador í Lundúnum.

Talsmaður sænska dómsmálaráðuneytisins sagði í samtali við AFP í dag að um væri að ræða fyrsta fund um málið en markmiðið væri að ná samkomulagi um samstarf milli landanna tveggja.

Í mars sl. baust ákæruvaldið í Svíþjóð til þess að yfirheyra Assange í Lundúnum en fram að því hafði verið farið fram á að hann ferðaðist til Svíþjóðar til að svara spurningum um ásakanirnar gegn honum sem settar voru fram árið 2010.

Tillögunni var hafnað en yfirvöld í Ekvador sögðu að áður þyrftu þjóðirnar að undirrita tvíhliða samkomulag.

Assange hafði einnig verið sakaður um önnur kynferðisbrot en þær ásakanir fyrndust fyrir tveimur vikum. Hann segist saklaus en óttast að yfirgefi hann sendiráðið verði hann á endanum framseldur til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert