Kallar eftir afdráttarlausu umboði

Tsipras sagðist hafa barist fyrir því af öllu hjarta að …
Tsipras sagðist hafa barist fyrir því af öllu hjarta að framfylgja því umboði sem þjóðin hefði veitt honum. AFP

Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, hvetur kjósendur í landinu til að veita flokki sínum Syriza afdráttarlaust umboð til að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum sem hún hefur ratað í. Hann freistar þess að ná hreinum meirihluta á þingi og segir að nú sé tíminn til að binda enda á sveiflu kjósenda milli hins íhaldssama New Democracy og sósíalistaflokksins Pasok.

„Það er er afar áríðandi að við tökum ekki skref aftur á bak heldur áfram,“ sagði Tsipras í samtali við Realnews.

Skoðanakannanir gefa ekki til kynna að forsætisráðherranum fyrrverandi verði að ósk sinni, en Syriza mælist aðeins með eins til þriggja prósentustiga forskot á New Democracy. Ef niðurstöður þeirra ganga eftir, neyðist Tsipras til að mynda samsteypustjórn en hann hefur útilokað að mynda þjóðstjórn og segist ekki munu starfa með fyrrnefndum flokkum né hægri-miðjuflokknum Potami.

Spurður að því hvers vegna hann hefði ekki beðið grísku þjóðinna afsökunar á því að hafa tekið u-beygju í afstöðu sinni til niðurskurðakrafa lánadrottna ríkisins, sagðist Tsipras hafa barist fyrir því af öllu hjarta að framfylgja því umboði sem þjóðin hefði veitt honum. Hann benti á að það hefði verið vilji hennar að vera áfram innan Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert