Fara „bakdyramegin“ til Noregs

AFP

Talsverður fjöldi sýrlenskra hælisleitenda hefur farið óvenjulega leið til þess að komast yfir landamæri Noregs en hún felst í því að kaupa flugmiða til Moskvu, höfuðborgar Rússlands, og ferðast síðan norður til landamæra Rússlands að Noregi nyrst í landinu.

Haft er eftir Hans Mollebakken, lögreglustjóra í bænum Kirkenes, í frétt AFP hafa um 150 hælisleitendur komið yfir landamæri Noregs með þessum hætti á árinu. Aðallega Sýrlendingar. Sumir hafa komið hjólandi á reiðhjólum. Fjöldinn hafi aukist mjög á þessu ári. 

Þannig segir í fréttinni að einungis 12 hælisleitendur hafi komið yfir landamærin að Rússlandi á síðasta ári. Lögreglan í Kirkenes hefur lagt hald á um 20 reiðhjól sem notuð hafa verið við að komast yfir landamærin og sektað bæði Rússa og Norðmenn sem hafa tekið fé fyrir að aka hælisleitendum yfir landamærin í bifreiðum síðum.

„Við viljum ekki að verið sé að gera erfiðleika þessa fólks að féþúfu,“ segir tollvörðurinn Goran Stenseth. Hælisleitendur sem komi yfir landamærin séu fluttir til Oslóar þar sem mál þeirra eru tekin fyrir í kerfinu. Samkvæmt opinberum tölum í Noregi hafa tæplega eitt þúsund Sýrlendingar sótt um hæli í landinu það sem af er þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert