Breskir fréttamenn ákærðir í Tyrklandi

Hörð átök hafa átt sér stað í Diyarbakir síðustu vikur.
Hörð átök hafa átt sér stað í Diyarbakir síðustu vikur. AFP

Tyrknesk yfirvöld ákærðu í dag þrjá fréttamenn í suðaustur Tyrklandi. Að sögn vinnuveitenda mannanna, fréttastofunnar VICE, hafa þeir verið sakaðir um að starfa fyrir „hryðjuverkasamtök“. Jake Hanrahan, Philip Pendlebury, ásamt bílstjóra, voru handteknir í gær þegar þeir voru að segja frá átökum á milli lögreglu og stuðningsmanna PKK, kúrdíska verkamannaflokksins. Sagt er frá þessu á vef tímaritsins TIME. 

Hanrahan og Pendlebury eru breskir en bílstjóri þeirra íraskur. Þeir voru handteknir í borginni Diyarbakir.

VICE hefur vísað ásökunum tyrkneskra yfirvalda, um að mennirnir hafi starfað fyrir hryðjuverkasamtök, á bug. Í yfirlýsingu fjölmiðilsins er því haldið fram að mennirnir hafi verið handteknir til þess að „ógna og ritskoða verk þeirra.“

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International og VICE sagði tyrkneska lögreglan að mennirnir hafi verið handteknir grunaðir um að hafa aðstoðað Ríki íslams.

„Það er fullkomlega eðlilegt að fréttamenn segi frá þessum mikilvægu atburðum,“ sagði í yfirlýsingu Amnesty. „Það að handtaka fréttamennina var rangt en að saka þá um að aðstoða Ríki íslams er óraunverulegt, svívirðilegt og undarlegt.“

Átök á milli PKK og tyrkneskra yfirvalda hafa stigmagnast síðasta mánuði eftir að Tyrkland hóf loftárásir á Norður-Írak og svæði innan Tyrklands.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert