Obama ræðir loftlagsmál í Alaska

Frá Alaska
Frá Alaska AFP

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, kemur til Alaska í dag en þar mun hann ávarpa ráðstefnu um loftlagsmál. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra er meðal þeirra sem taka þátt í ráðstefnunni.

Ekki er talið að allir íbúar Alaska muni taka komu forsetans fagnandi en gríðarlega mikil olíuvinnsla er í ríkinu. Obama segir aftur á móti að nauðsynlegt sé að almenningur grípi til aðgerða og taki þátt í baráttunni gegn mesta vanda sem steðjar að mannkyninu, það er hlýnun jarðar.

„Það sem er að gerast í Alaska er að gerast fyrir okkur,“ sagði Obama við fréttamenn áður en hann lagði af stað í ferðalagið til Alaska. Hann bætti við að svo lengi sem hann gegndi embætti forseta þá myndu Bandaríkin leiða umræðuna og aðgerðir varðandi loftlagsbreytingar. Hann vísaði þar til hækkun hita sjávar, bráðnun jökla og að meðalhitinn á jörðinni fari hækkandi.

Obama ætlar meðal annars að skoða jökla í Alaska og að ræða við sjómenn sem hafa staðið framarlega í baráttunni gegn loftlagsbreytingum í ríkinu.

En margir íbúar í Alaska óttast að forsetinn hafi gleymt efnahagsvandræðum ríkisins. Meðal annars vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu sem hefur haft mikil áhrif á afkomu ríkisins. Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði til að mynda lánshæfismat Alaska úr stöðugum horfum í neikvæðar.

Barack Obama
Barack Obama AFP
Enginn afli - bátar ínúíta í Alaska en hlýjun sjávar …
Enginn afli - bátar ínúíta í Alaska en hlýjun sjávar hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir sjómenn í ríkinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert