Flóttamaður falinn í vélarrými bifreiðar

Hér má sjá flóttamanninn í vélarými bifreiðarinnar.
Hér má sjá flóttamanninn í vélarými bifreiðarinnar. Skjáskot af Sky

Tveir flóttamenn frá Vestur-Afríku fundust á dögunum faldir í bíl á leið til Spánar. Annar var falinn við hliðina á vélinni en hinn bakvið aftursætið. Sky News segir frá þessu.

Lögregla á Spáni fann mennina þegar að bifreiðin var skoðuð við landamæri Spánar og Marokkó. Bifreiðin er að gerðinni Mercedes 300. Hún var stöðvuð og leitað í henni eftir að lögreglumenn tóku eftir því að bílnúmerið passaði ekki við bifreiðina.

Flóttamennirnir koma frá Gíneu og báru einkenni súrefnisskorts og ofþreytu. Að sögn lögreglu voru tveir menn frá Marokkó að auki um borð bifreiðarinnar. Annar keyrði á meðan hinn sat í farþegasætinu. Þeir voru báðir handteknir.

Mörg hundruð þúsund flóttamenn hafa reynt að komast til Norður-Evrópu síðustu misseri. Þeir hafa flúið heimili sín í Miðausturlöndum og Afríku. Mörg hundruð hafa látið lífið á leiðinni og enn fleiri hafa orðið fórnarlömb smyglara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert