Fundu mannabein við sænskan kastala

Frá uppgreftrinum við kastalann.
Frá uppgreftrinum við kastalann. Ljósmynd/Magnus Stibéus/Statens historiska museum

Beinagrindur þriggja barna og níu karlmanna fundust innan hallargarðar Kalmar kastalans í Svíþjóð í mars. Rannsóknir benda til þess að beinin séu allt upp í 500 ára gömul samkvæmt sænska fréttavefnum The Local.

Tvær beinagrindanna voru í líkkistum en hinar voru grafnar í jörðu undir einum veggja kastalans.

„Ég hef fundið beinagrindur áður svo ég fékk ekki áfall við að sjá líkin sem slík en ég var hissa á að finna þau þarna,“ segir Magnus Stibéus, talsmaður Fornminjasafns Svíþjóðar (Statens historiska museum), sem leiddi fornleifauppgröftinn á svæðinu.

Hann segir beinin hafa verið uppgötvuð af tveimur fornleifafræðingum á svæði sem ekki hafði verið unnt að rannsaka áður en var nú aðgengilegt vegna viðgerða á veggjum kastalans.

„Við teljum okkur hafa fundið tólf manns. Minnst tvö börn, tveggja og þriggja ára, og eitt sem við höldum að sé 12 ára. Við teljum að hin beinin séu af karlmönnum. Við vitum ekki hvort þeir eru frá Kalmar eða einhverjum öðrum stað, kannski Danmörku, svo við erum að reyna að komast að því.“

Stibéus segir það enn óráðna gátu hvernig fólkið gat dáið en að besta ágiskunin væri sú að um starfsfólk kastalans væri að ræða og að það hefði veikst síðla á 15. öld eða snemma á þeirri 16.

„Kannski dó það úr sýkingu sem eitthvað olli...kannski úr plágunni. Við ætlum að reyna að uppgötva meira,“ sagði hann og bætti við að líklegt væri að líkin hefðu verið á svæðinu áður en veggur kastalans var endurbyggður á 16. öld og hefðu verið hunsuð af verkamönnum á þeim tíma.

Kalmar kastali.
Kalmar kastali. Wikipedia Commons/ Martin Grädler
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert