Þriðjungur konur og börn

Flóttafólk að bíða eftir heimild frá lögreglunni í Makedóníu um …
Flóttafólk að bíða eftir heimild frá lögreglunni í Makedóníu um að fá að halda förinni áfram. AFP

Þriðjungur allra flótta- og förufólks sem fer í gegnum Makedóníu eru konur og börn. Fjöldi þeirra hefur þrefaldast á síðustu þremur mánuðum samkvæmt upplýsingum frá barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Um 12% kvennanna eru þungaðar og segir í skýrslu UNICEF að fjöldi flóttafólks fari stigvaxandi dag frá degi en fólkið kemur til Makedóníu frá Grikklandi sem er yfirleitt fyrsti áfangastaður þeirra að lokinni för yfir Miðjarðarhaf. 

Ítrekað hefur komið til átaka milli flóttafólksins og lögreglu sem hefur reynt að stöðva fólksstrauminn á svokallaðri Balkanleið til Norður-Evrópu.

UNICEF áætlar að um þrjú þúsund manns komi til Makedóníu á hverjum degi, flestir frá Grikklandi og á leið til Þýskalands eða Svíþjóðar. Um 80% þeirra flóttamanna sem koma til Makedóníu eru að flýja stríðið í Sýrlandi en aðrir koma frá Írak eða Afganistan.

Frá því í júní hafa yfir 52 þúsund flóttamenn verið skráðir í miðstöðinni í Gevgelija í Suður-Makedóníu en talið er að um 50 þúsund til viðbótar hafi farið um landið án þess að vera skráðir.

„Margar fjölskyldur hafa verið á flótta með börn sín mánuðum saman, í óbærilegum hita án nokkurs farangurs, aðeins fötin og skóna sem þau eru í. Þau eru andlega útkeyrð og í bráðri þörf fyrir stað til þess að dveljast á,“ segir í skýrslu UNICEF. 

Beðið eftir lest í Gevgelija í Makedóníu
Beðið eftir lest í Gevgelija í Makedóníu AFP
Frá Gevgelija í Makedóníu
Frá Gevgelija í Makedóníu AFP
Sýrlenskt flóttafólk á leið um Makedóníu
Sýrlenskt flóttafólk á leið um Makedóníu AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert