Einhver veit hver myrti konurnar

Eve Stratford (til vinstri) og Lynne Weedon (til hægri).
Eve Stratford (til vinstri) og Lynne Weedon (til hægri). Skjáskot af SkyNews

Í dag, fimmtudaginn 3. september, eru fjörtíu ár frá því að ráðist var á hina sextán ára Lynne Weedon. Hún lést viku síðar á sjúkrahúsi en hún var slegin þungu höggi í höfuðið. Hin 22 ára Eve Stratford var myrt sama ár en 31 ári síðar kom í ljós að sama erfðaefnið hafði verið á líkömum beggja kvennanna. Lögregla telur víst að einhver geti gefið upplýsingar sem leiði til þess að bæði málin verði upplýst.

Ráðist var á Weedon í húsasundi nálægt heimili hennar í Hounslow í vesturhluta London. Þegar hún fannst næsta morgun var varla lífsmark með henni og lést hún á sjúkrahúsi viku síðar. Weedon var slegin einu þungu höggi í höfuðið og drógu áverkarnir sem hún hlaut við það hana til dauða. Vopnið fannst aldrei og heldur ekki árásarmaðurinn.

Árið 2006 var mál hennar rifjað upp að nýju í tengslum við morðið á hinni 22 ára Eve Stratford. Hún starfaði á Playboy-klúbbi í London og var skorin á háls á heimili sínu í Leyton í austurhluta London þann 18. mars árið 1975. Áverkar hennar voru alvarlegir en skurðurinn náði frá eyra til eyra. Engin merki voru um að brotist hefði verið inn til hennar og þá fannst morðvopnið aldrei.

Málin voru ekki tengd saman fyrr en rúmlega þrjátíu árum eftir morðin en þá var hægt að beita nýrri tækni til að greina sönnunargögn málsins. Þá kom í ljós að sama erfðaefni fannst á líkama Weedon og líki Stratford. Talið er að morðingi þeirra sé á sjötugs- eða áttræðisaldri ef hann er enn á lífi.

Fyrr á þessu ári sagði móðir Weedon í samtali við fjölmiðla að fjölskyldan þráði niðurstöðu í málinu. „Við höfum saknað hennar svo mikið; hún missti af lífinu, engin sambönd eða hjónaband, enginn starfsferill eða börn eða jafnvel bara að ferðast um heiminn, þetta var allt tekið frá henni,“ sagði hún.

Lögregla hefur áður sagt að það sé óhugsandi að morðingi Weedon og Stratford hafi tekist að halda málinu leyndu í fjörtíu ár. Þá telur lögregla einnig að morðinginn hafi þekkt bæði fórnarlömbin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert