Gefa út handtökuskipun á hendur forseta landsins

Forseti Gvatemala, Otto Perez.
Forseti Gvatemala, Otto Perez. AFP

Dómari hefur gefið út handtökuskipun á hendur forseta Gvatemala, Otto Perez, en hann á yfir höfði sér saksókn fyrir spillingu. Perez hefur verið sviptur friðhelgi en hann er sakaður um að vera höfuðpaurinn í viðamiklu spillingarmáli.

Uppfært klukkan 7:40 - Nýjar fréttir herma að forsetinn hafi sagt af sér.

Rannsóknardómarinn, Miguel Angel Galvez, staðfestir að handtökuskipunin hafi verið gefin út en hann stýrir rannsókn á forsetanum. Perez verður sjálfkrafa vikið úr embætti ef hann verður handtekinn. Perez segist hins vegar vera reiðubúinn til þess að veita aðstoð við rannsóknina og muni mæta af fúsum og frjálsum vilja fyrir dómara og því þurfi ekki að handtaka hann. 

Perez getur áfram gegnt embætti forseta þrátt fyrir að vera sviptur friðhelgi svo lengi sem hann er ekki hnepptur í varðhald.

Ríkissaksóknari Gvatemala er sannfærður um að Perez verði fundinn sekur um spillingu en þingheimur staðfesti að hann yrði sviptur friðhelgi mótatkvæðalaust á þriðjudag. 

Perez er sakaður um að hafa stýrt áætlun þar sem fyrirtæki greiddu mútur til þess að komast hjá því að greiða skatt af innflutningsvörum. Með þessu varð ríkissjóður af milljónum Bandaríkjadala. Forsetinn heldur því staðfastlega fram að hann hafi ekki komið nálægt þessu og hefur ekki orðið að vilja mótmælenda sem fara fram á afsögn hans.

Varaforseti landsins sagði hins vegar af sér í sumar og fjölmargir embættismenn hafa þurft að láta af starfi sínu. Fjölmargir stuðningsmanna Perez hafa snúið við honum baki og hefur tæplega helmingur ríkisstjórnar landsins sagt af sér.

Fljótlega fara fram forsetakosningar í Gvatemala og Perez sem hefur gegnt embætti forseta frá 2012 má ekki bjóða sig fram að nýju, samkvæmt stjórnarskrá landsins. Kjörtímabili hans lýkur 14. janúar.

T

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert