Hollenskur hermaður til liðs við ISIS

Sýrlendingar á flótta undar átökunum í landinu.
Sýrlendingar á flótta undar átökunum í landinu. AFP

Hollenskur liðþjálfi er talinn hafa stungið af til Sýrlands til að ganga til liðs við samtökin Ríki íslams. Þetta er í fyrsta skipti sem hermaður við störf í hollenska hernum gerist sekur um brot af þessu tagi. Rannsókn er hafin á máli mannsins sem er 26 ára gamall.  

Manninum hefur verið vikið frá störfum innan hersins. Ekki liggur fyrir hvar hann var við störf og að hvaða trúnaðarupplýsingum hersins hann gæti hafa komist yfir. „Það er alveg ljóst að það að ferðast til annarra landa og ganga til liðs við samtökin sem um ræðir er óásættanlegt og það er líka glæpur,“ er haft eftir Jeanine Hennis Plasschaert, varnarmálaráðherra Hollands, í tilkynningu.

Nokkuð er um að hermenn sem áður störfuðu í hollenska hernum hafi gengið til liðs við samtökin. Um 180 hollenskir ríkisborgarar hafa ferðast til annarra landa til að ganga til liðs við Ríki íslam samkvæmt gögnum sem gefin voru út í apríl á þessu ári. Talið er að um tuttugu þeirra hafi látið lífið í átökum og þrjátíu og fimm hafi snúið aftur til Hollands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert