Smokkaauglýsing leiði til nauðgana

Indverskur stjórnmálamaður vill banna smokkaauglýsingar.
Indverskur stjórnmálamaður vill banna smokkaauglýsingar. Morgunblaðið/Eggert

Indverski stjórnmálamaðurinn Atul Kumar Anjan sem situr á þingi fyrir Kommúnistaflokkinn þar í landi segir að smokkaauglýsing þar sem þekkt klámstjarna fer með aðalhlutverkið muni leiða til þess að nauðgunum fjölgi verulega í landinu. Hann telur að banna eigi auglýsingar sem þessar.

Indverskir stjórnmálamenn hafa að undanförnu verið gagnrýndir fyrir að gera lítið úr kynferðisbrotum.

Ummæli stjórnamálamannsins Mulayam Singh á síðasta ári vöktu til að mynda mikla athygli en hann sagði að „drengir gerðu mistök“ og „strákar yrðu alltaf strákar.“ Madhya Pradesh sagði að nauðganir væri „stundum í lagi, stundum ekki.“

Sumir indverskir stjórnmálamenn kenna þröngum gallabuxum, stuttum skyrtum og öðrum vestrænum áhrifum um aukinn fjölda kynferðisbrota í landinu.

Ummæli Anjan um auglýsinguna fylgja í kjölfar þessara ummæla og hafa vakið töluverða athygli. Kvenréttindahópar hafa til að mynda gagnrýnt hann harðlega.

„Vinur, nauðgun er afleiðing á skorti á virðingu fyrir sjálfstæði og samþykki konunnar. Ekki vegna kláms, naktra kvenna eða annarrar „ögrunar“, skrifaði aðgerðarsinninn Kavita Krishnan á Facebook-síðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert