Cameron varaði Katalóna við

David Cameron og Mariano Rajoy á blaðamannafundinum í dag.
David Cameron og Mariano Rajoy á blaðamannafundinum í dag. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, varaði í dag við afleiðingum þess ef Katalónía lýsir yfir sjálfstæði frá Spáni. Það þýddi að héraðið færi aftast í röð þeirra ríkja sem vildu ganga í Evrópusambandið. Ummælin féllu á blaðamannafundi í Madrid, höfuðborg Spánar, með spænska forsætisráðherranum Mariano Rajoy sem hefur hafnað sjálfstæðishugmyndum Katalóna.

Haft er eftir Cameron að hann hefði sömu afstöðu til málsins og til hugmynda í Skotlandi um sjálfstæði frá Bretlandi, en fellt var í þjóðaratkvæði í Skotlandi fyrir ári að lýsa yfir sjálfstæði. „Við stöndum betur að vígi saman, við erum sterkari saman og höfum það betra saman. Við ættum að standa saman sama hvaða aðstæðum við stöndum frammi fyrir.“

Tilgangur heimsóknar Camerons til Spánar er að afla stuðnings við hugmyndir hans um að endurheimta vald yfir ákveðnum málum frá Evrópusambandinu en hann hefur heitið þjóðaratkvæði í Bretlandi um veru landsins í sambandinu á næsta ári. Rajoy sagði ríkisstjórn sína reiðubúna að skoða hugmyndir Camerons og bætti við að hann vildi gjarnan að Bretar yrðu áfram í Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert