Óttast um afdrif Schengen

Forsætisráðherrar Norðurlandanna: Stefan Löfven, Svíþjóð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Lars Løkke …
Forsætisráðherrar Norðurlandanna: Stefan Löfven, Svíþjóð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Lars Løkke Rasmussen, Danmörku Juha Sipila Finnlandi og Erna Solberg frá Noregi. AFP

Málefni flóttafólks voru til umræðu á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Danmörku í morgun. Ráðherrarnir eru samstíga að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra en forsætisráðherra Noregs óttast um afdrif Schengen samstarfsins.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, óttast um afdrif Schengen svæðisins og hvetur ríki til þess að tryggja landamæri sín vegna straums flóttafólks til Evrópu. Hún segir að ytri landamæri Schengen hafi rofnað og að tryggja verði að þau standi. Þetta kom fram í máli Solberg á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna sem nú stendur yfir í Danmörku. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra situr fundinn.

Ísland, líkt og Noregur eru innan Schengen landamærasamstarfsins en alls eru ríkin 26 talsins sem hægt er að ferðast um án vegabréfs. Vegna flóttamannastraumsins hafa ríki eins og Þýskaland, Austurríki og Slóvakía tekið upp harðara eftirlit á landamærum sínum.

Solberg tekur í svipaðan streng og Frakklandsforseti, Francois Hollande, gerði á fimmtudag en hann sagði þá að Schengen væri í hættu þar sem það vantar skráningarmiðstöðvar þar sem greint er á milli flóttafólks og förufólks. 

Hollande segir að ef ekki er fylgst með ytri landamærum ESB þá muni ríki telja sig tilneydd til þess að að endurvekja eftirlit á landamærum sínum og það muni marka endalok Schengen.

Noregur heldur uppi eftirliti á landamærunum við Rússland en yfir 250 flóttamenn hafa komið þá leið til landsins það sem af er ári.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði við fréttamenn að afloknum fundi í morgun að allir þeir sem eiga rétt á hæli eigi að fá hæli. En þeir sem ekki hafa rétt á hæli eigi að senda til baka. 

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, tekur í sama streng og segir að þeir sem ekki þurfi á vernd að halda eigi að senda til baka eins fljótt og auðið er. 

Berlingske hefur eftir Sigmundi Davíð að forsætisráðherrarnir hafi verið mjög á sama máli um flest það sem rætt var á fundi ráðherranna í morgun. 

Finnar gagnrýna Svía fyrir að senda flóttafólk, einkum Íraka, yfir til Finnlands þar sem þeir sækja um hæli og sama gagnrýni kom fram hjá Svíum gagnvart Dönum. Rasmussen segir að slíkar gagnrýniraddir hafi ekki verið uppi á fundinum í morgun. 

Erna Solberg, Lars Løkke Rasmussen og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Erna Solberg, Lars Løkke Rasmussen og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson AFP
Juha Sipila, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Erna Solberg
Juha Sipila, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Erna Solberg
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert