Merkel tjáir sig um Volkswagen-svindlið

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að svindl Volkswagen í útblásturmælingum díselbíla sé vissulega stórbrotið en hún telur þó að það eigi ekki eftir að hafa varanleg áhrif á orðspor Þýskalands.

Í viðtali við útvarpsstöðina Deutschlandradio sagði Merkel að Volkswagen þyrftu nú að gæta nauðsynlegs gagnsæis í verkum sínum. „Þetta er stórbrotið svindl sem er að sjálfsögðu ekki gott,“ sagði Merkel.

Hún telur þó að atvikið verði ekki til þess að orðspor þýska iðnaðarins og það traust sem hefur ríkt til þýska efnahagskerfisins fari fyrir bí.

Mikið hefur mætt á Volkswagensamsteypunni undanfarnar vikur vegna uppljóstrana um að falin forrit í tölvustýringum aflrásar ýmissa módela dísilbíla hafi gefið upp ranga losun vélanna á gróðurhúsalofti, aðallega hættulegu nitursambandi.

Svindlið hefur minnkað markaðsvirði Volkswagen um 40% prósent og varð til þess að forstjóri samsteypunnar Martin Winterkom sagði af sér.

Heklu, umboðsaðila Volkswagen á Íslandi, hafa borist þær upplýsingar frá þýsku samstæðunni Volkswagen Group að 3.647 bílar eru á Íslandi með dísilvélinni umræddu. Þá hefur Volkswagen Group lýst yfir fullri ábyrgð á þeim tæknilegu lagfæringum sem grípa þarf til og þeim kostnaði sem af hlýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert