Inúítar á hálum ís vegna loftslagsbreytinga

Síðustu sumur hafa Íslendingar furðað sig á því að ekkert bólar á þeirri hnattrænu hlýnun sem hótað hefur verið um nokkurt skeið. En þó svo að Íslendingum sé alltaf kalt, óháð veðri, sjá íbúar heimskautaþorpsins Umiujaq áhrif loftslagsbreytinganna allt í kringum sig.

„Ég elska að veiða í gegnum vök, ég elska hrogn. En tímabilið endist aðeins í fáeinar vikur og það verður hættulegt mjög hratt á þunnum ísnum,“ segir einn íbúi þorpsins, Nellie Tookalook, í samtali við AFP.

Umiujaq er afskekkt þorp á strönd Hudson Bay í austur Kanada og tilheyrir svæði sem hlýnar tvöfalt hraðar en aðrir heimshlutar. Sífreri í jörðu er grunnurinn að vegum og byggingum á svæðinu en þar sem hann er tekinn að bráðna hefur vegurinn að flugvelli þorpsins eyðilagst. Unnið er að viðgerðum að kappi enda er vegurinn og flugvöllurinn eina tenging þorpsins við umheiminn. Algengt er að stórar sprungur birtist í veggjum og slökkvistöðin í nágrannaþorpinu Salluit er hrunin.

Dýra og plöntulíf á svæðinu hefur einnig tekið stakkaskiptum og í fyrsta skipti ganga hitabylgjur yfir svæðið. Eldra fólk sem áður gat reitt sig á eigin reynslu hefur nú enga leið til að segja fyrir um veðrið þar sem það er nær óútreiknanlegt.

„Við reynum að vera ekki úti þegar það er of heitt,“ segir hin 22 ára Anita Inukpuk sem lýsir sér sem „vetrarmanneskju“. „Á síðasta ári var hitabylgja í tvo til þrjá daga, ég fékk næstum hitaslag. Hitinn var í kringum 29 til 30 gráður. Það er of mikið fyrir mig!“

Fiskveiðimaðurinn Lucassie Cooke segir veðrið hafa slæm áhrif á afkomu sína. „Þegar það er heitt er varla neinn fiskur núna því þeir fara dýpra. Og við erum með moskító og flugur allt sumarið. Sumrin eru að verða erfiðari og erfiðari“.

Breytingarnar á vetrinum eru inúítunum enn þungbærari þar sem hann er um tveimur mánuðum styttri en árum. Ísinn kemur seinna en áður og er þynnri og viðkvæmari en fyrr. Nýlega féll veiðimaður á snjósleða í gegnum ísinn og týndist.

„Nú förum við í einnar nætur útilegur í stað þess að tjalda í eina viku eins og áður. Það hefur áhrif á lífshætti okkar. Lífshættir okkar byggjast á sjónum og ísnum. Inúítarnir eiga erfiðara með að finna seli og ákveðnar tegundir hvala en tilveru þeirra er ógnað af auknum fjölda háhyrninga á svæðinu að sögn vísindamanna.

„Þegar ég var barn sagði amma mér að einhvern daginn yrði enginn snjór. Ég trúði henni ekki,“ segir Lucassie Tooktoo. „En sumar spár hafa þegar ræst og kannski verður enginn snjór einn daginn.“

Charlie Tooktooo kveðst reiður því að heimurinn standi aðgerðarlaus hjá á meðan loftslagsbreytingar eyðileggja heimkynni inúítanna. „Ef við verðum að breytast munum við gera það en þær eru að gerast hraðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert