Kann að fresta þjóðaratkvæðinu

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Hugsanlegt er talið að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fresti fyrirhuguðu þjóðaratkvæði um veru landsins í Evrópusambandinu til ársins 2017 en áður hafði hann hugsað sér að það færi fram á næsta ári. Cameron hét því fyrir síðustu þingkosningar að þjóðaratkvæði yrði haldið um málið fyrir árslok 2017.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Independent að ástæðan sé einkum sú að Cameron telji sig þurfa meiri tíma til þess að reyna að semja við aðra forystumenn innan Evrópusambandsins um breytta skilmála fyrir aðild Bretlands að sambandinu. Forsætisráðherrann hefur til þessa fengið fremur dræmar undirtekir vegna hugmynda sinna. Ætlun hans er að Bretar kjósi um áframhaldandi veru í Evrópusambandinu á breyttum forsendum eða úrsögn úr sambandinu.

Þá hafa nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn Camerons lýst áhyggjum af því að yfirstandandi flóttamannavandi í Evrópusambandinu auki líkurnar á að Bretar kjósi að segja skilið við sambandið. Ekki er reiknað með að forsætisráðherrann tilkynni um nákvæma tímasetningu þjóðaratkvæðisins fyrr en eftir fund leiðtoga ríkja Evrópusambandsins í desember þar sem rætt verður sérstaklega um stöðu Bretlands innan sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert