Friðarverðlaunin til Túnis

Frakklandsforseti sést hér ræða við fulltrúa kvartettsins:Wided Bouchamaoui,Houcine Abbassi, Abdessattar …
Frakklandsforseti sést hér ræða við fulltrúa kvartettsins:Wided Bouchamaoui,Houcine Abbassi, Abdessattar ben Moussa og Fadhel Mahfoudh AFP

Friðarverðlaun Nóbels í ár fara til Túnis, til kvartettsins sem kom að friðarviðræðum þar í kjölfar arabíska vorsins.

Arabíska vorið svonefnda hófst í janúar 2011 og varð til þess að fjórir einræðisherrar í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum hrökkluðust frá völdum. Mótmælaaldan hófst í Túnis og varð fyrst til þess að forseti landsins, Zine El Abidine Ben Ali, flúði þaðan 14. janúar eftir að hafa verið við völd í 23 ár. Um 300 manns biðu bana í mótmælunum í Túnis.

Um er að ræða „National Dialogue Quartet“ en kvartettinn kom að uppbyggingu lýðræðis í Túnis í kjölfar byltingarinnar í landinu 2011. Verðlaunin fær hópurinn fyrir framlag sitt til þess að byggja upp lýðræði og þingræði í Túnis eftir Jasmine uppreisnina svonefndu árið 2011 er Ben Ali var hrakinn frá völdum.

Alls komu 273 til greina sem handhafar Friðarverðlauna Nóbels í ár. Þau sem einna oftast voru nefnd til sögunnar eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Frans páfi. 

Það eru fjögur samtök sem mynd túníska kvartettinn: Verkamannasamtök Túnis, Samtök iðnaðarins, handverks og viðskipta, mannréttindaráð Túnis og samtök lögfræðinga. 

Kaci Kullmann Five, formaður dómnefndarinnar, segir að samtökin fjögur séu fulltrúar ólíkra greina og gilda í túnísku samfélagi. Atvinnulífi og velferðarkerfinu, lögum og mannréttinda. Hún segir að kvartettinn hafi styrkst í hlutverki sínu sem sáttasemjari og það drífandi afl sem þurfti til að ná friði og lýðræðisumbótum í landinu.

Upplýsingar um kvartettinn

Þrátt fyrir að Alfred Nobel, stofnandi Nóbelsverðlaunanna, hafi verið sænskur eru Friðarverðlaun Nóbels ávallt veitt í Ósló í Noregi. Á síðasta ári tóku þau Malala Yousafzai frá Pakistan og Kailash Satyarthi frá Indlandi við verðlaununum úr hendi Haralds Noregskonungs. Verðlaunin hlutu þau fyrir baráttu gegn undirokun og fyrir rétti allra barna og unglinga til menntunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert