Nálgast Aleppo óðfluga

Frá Aleppo.
Frá Aleppo. AFP

Skæruliðar Ríki íslams nálgast nú úthverfi sýrlensku borgarinnar Aleppo þrátt fyrir yfirlýsingar Rússa um að loftárásir þeirra hafi drepið hundruð þeirra síðasta sólarhringinn.

Tíu dagar eru síðan Rússar hófu loftárásir sínar í Sýrlandi og í morgun sagði rússneski hershöfðinginn Igor Makushev blaðamönnum að tvær herþotur hafi gert loftárásir á sextíu skotmörk. Hann sagði einnig að Rússar hafi sprengt upp stjórnstöð Ríkis íslams í borginni Raqa, höfuðvígi Ríkis íslams. Að sögn Makushev létu tveir yfirmenn Ríkis íslams lífið og 200 skæruliðar.

Þar að auki eiga loftárásir Rússa á Aleppo að hafa drepið um hundrað skæruliða. Mörg Vesturlönd hafa þó ásakað Rússa um að beina árásum sínum frekar að uppreisnarmönnum gegn Sýrlandsforseta heldur en Ríki íslams.

En þrátt fyrir árásir Rússa hefur Ríki íslams náð að komast nær Aleppo en nokkru sinni fyrr. Aleppo er næststærsta borg landsins og stendur í norðurhluta þess.

Samkvæmt upplýsingum frá bresku mannréttindasamtökunum The Syrian Observatory for Human Rights létust fjölmargir þegar að skæruliðar Ríkis íslams réðust á bækistöðvar uppreisnarmanna í þorpum nálægt Aleppo og á herstöð. Þeir eru nú aðeins í um 10 kílómetra fjarlægð frá borgarmörkunum og þremur kílómetrum frá hersveitum hliðhollum Sýrlandsforseta í Sheikh Najjar iðnaðarhverfinu.

„Ríki íslams hefur aldrei verið svona nálægt Aleppo,“ sagði Rami Abdel Rahman hjá TSOHR í samtali við AFP. Aleppo er stjórnað af uppreisnarmönnum í austri og stjórnarhernum og öðrum stuðningsmönnum forsetans í vestri.

Aleppo er stjórnað af uppreisnarmönnum í austri og stjórnarhernum í …
Aleppo er stjórnað af uppreisnarmönnum í austri og stjórnarhernum í vestri. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert